Ríkisstjórn Sýrlands ber ábyrgð á efnavopnaárás í Khan Sheikhun í Sýrlandi 4. apríl., samkvæmt skýrslu frá Sameinuðu þjóðunum. Meira en 80 létust í árásinni, þar af 31 barn.
Höfundar skýrslunnar segjast sannfærðir um að sarín-taugagasi hafi verið beitt í árásinni.
Sjónarvottar að árásinni segja að orrustuþotur hafi flogið yfir þorpið. Rússar hafa sagt að þeir hafi ekki beitt efnavopnum en að orrustuþotur hafi varpað sprengjum á vopnabúr uppreisnarmanna þar sem efnavopn hafi verið geymd.
Á myndskeiðum sem tekin voru á vettvangi árásarinnar mátti sjá börn berjast við að ná andanum og froðu vella úr munnvikum þeirra.
„Skýrslan staðfestir að það sem við höfum lengi talið okkur vita er satt,“ sagði Nikki Haley, sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum.
Bashar al-Assad Sýrlandsforseti og rússneskir bandamenn hans hafa ítrekað sagt að þessar fullyrðingar séu uppspuni frá rótum. Assad sagði í viðtali við AFP-fréttastofuna í apríl að Sýrlandsher notaði ekki efnavopn.