Allt að 11.000 manns kunna að eiga við geðrænan vanda að etja í kjölfar brunans í Grenfell-turninum í júní á þessu ári, en talið er að um 80 manns hafi látið lífið í eldinum.
Sky-fréttastofan segir rúmlega 1.000 manns þegar hafa leitað til hemilslæknis í kjölfar erfiðleika sem tengjast brunanum og sérfræðingar telja þúsundir til viðbótar eiga við vanda að etja.
„Ég held að þetta sé eitt stærsta meðferðarverkefni sem tekist hefur verið á við í Evrópu í geðheilbrigðismálum,“ sagði dr. John Green geðlæknir sem hefur yfirumsjón með verkefninu „Það hefur aldrei verið neitt á þessum skala áður.“
Rúmlega 1.300 manns hafa þegar leitað sér aðstoðar vegna áfallastreituröskunar eða andlegra erfiðleika í kjölfar brunans. 200 heilbrigðisstarfsmenn vinna nú að því að banka á dyr hjá fólki í hverfinu sem kann að eiga í erfiðleikum vegna brunans, en ekki er búist við því að allir sem eru hjálparþurfi leiti sér aðstoðar.
Fréttastofa Sky sjónvarpsstöðvarinnar ræddi við Rajaa sem kom á fót eigin stuðningshóp, en hún segir marga íbúa vantreysta ríkinu og þiggi því ekki aðstoð frá heilbrigðisyfirvöldum. Sjálf missti hún frænku sína og fjölskyldu hennar í eldinum.
„Þau dóu í byggingu sem hefði ekki átt að geta brunnið á þann hátt sem hún gerði. Þetta er nokkuð sem við þurfum að lifa með og það vekur manni ótta,“ sagði Rajaa. Hún horfir á rústir Grenfell turnsins út um svefnherbergisgluggann heima hjá sér og segir það erfiða sýn.
„Þetta er erfitt fyrir fjölskyldu okkar og stundum brotnar mamma niður og grætur. Þetta var bróðir hennar, mágkona hennar og bræðrabörn.“
Tölur sína að einn af hverjum fimm fullorðnum og eitt af hverjum þremur börnum hafa neitað að þiggja sálfræðiaðstoð breskra heilbrigðisyfirvalda vegna brunans.
Rajaa, sem er námsráðgjafi, setti því á fót eigin stuðningshóp. „Mig langaði að hjálpa til – þetta er mín leið að bata,“ segir Rajaa.