Ummæli Johns Kelly, starfsmannastjóra Hvíta hússins, um að hershöfðinginn Robert E. Lee hafi verið heiðvirður maður hafa verið gagnrýnd harðlega í Bandaríkjunum.
Kelly sagði einnig í viðtali við sjónvarpsstöðina Fox News í gærkvöldi að bandaríska borgarastyrjöldin hafi verið háð vegna þess að ekki hafi verið hægt að gera málamiðlun en stríðið var háð vegna deilna um þrælahald.
Auknar kröfur hafa verið uppi í Bandaríkjunum um að taka niður styttur og minnisvarða þar sem hershöfðingjar og leiðtogar suðuríkjasambandsins í styrjöldinni á árunum 1861 til 1865 eru heiðraðir.
Margir telja slíka minnisvarða bera vott um jákvæðni í garð kynþáttafordóma í landinu á árum áður.
„Robert E. Lee var heiðvirður maður,” sagði Kelly þegar hann var spurður um deilurnar vegna minnisvarðanna.
„Hann gaf þjóð sína upp á bátinn til að berjast fyrir ríkið sitt, sem fyrir 150 árum síðan var mikilvægara en þjóðin.”
„Í dag eru hlutirnir öðruvísi. En skortur á málamiðlun leiddi til borgarastyrjaldarinnar og karlar og konur báðum megin tóku afstöðu í góðri trú þar sem samviska þeirra sagði þeim að taka afstöðu,” bætti hann við.
Dóttir mannréttindaleiðtogans Martins Luther King Jr., Bernice King, sagði ummæli Kelly hættuleg. „Þau eru ábyrgðarlaus og hættuleg, sérstaklega þegar hvítir þjóðernissinnar finna til hvatningar fyrir því að berjast fyrir þrælahaldi.”
Deildur spruttu upp um arfleið þrælastríðsins í ágúst þegar hvítir þjóðernissinnar og mótmælendur þeirra áttust við í Charlottesville í Virginíu þar sem þjóðernissinnarnir mótmæltu því að stytta af Robert E. Lee yrði fjarlægð.