Maður sem japanska lögreglan handtók í gær eftir að sundurlimuð lík fundust í íbúð hans hefur nú játað að hafa myrt níu manns yfir tveggja mánaða tímabil að því er BBC hefur eftir japönskum fjölmiðlum.
Greint var frá því í gær að lögregla hefði fundið tvö afhöggvin höfuð og líkamshluta af sjö einstaklingum til viðbótar í íbúð hins 27 ára gamla Takahiro Shiraishi. Á Shiraishi að hafa gefið þá skýringu á sundurlimuðum líkunum að þetta hafi hann gert til að losa sig við líkin. Hann hafi síðan sett kattasand yfir þá líkamshluta sem enn voru eftir til að fela þá.
Japanska lögreglan segir manninn eiga fjölda ákæra yfir höfði sér.
Málið uppgötvaðist þegar lögregla fann tvö höfuð í kæligeymslu fyrir utan íbúð Shiraishis. Þegar inn í íbúðina var komið fundust síðan líkamshlutar af sjö öðrum einstaklingum sem geymdir höfðu verið í kæliboxum í íbúðinni.
Frekari upplýsingar um Shiraishi hafa nú litið dagsins ljós og greindi lögregla japönskum fjölmiðlum frá því að hann hefði fundið fórnarlömb sín í gegnum samskiptamiðilinn Twitter og að talið sé að hann hafi myrt þau daginn sem hann hitti þau.
Rannsakendur eru enn að reyna að bera kennsl á öll fórnarlömbin, en líkfundurinn tengdist leit lögreglu að ungri konu í sjálfsvígshugleiðingum. Hún hafði sett þau skilaboð inn á Twitter að hún væri að leita einhvers sem vildi fremja sjálfsvíg með henni og setti Shiraishi sig í samband við hana og bauðst til þess.