Samfélagsmiðlar undir smásjá Bandaríkjaþings

Öldungadeildarþingmaðurinn og nefndarmaðurinn Amy Klobuchar birtir hér Twitter-skilaboð sem sögðu …
Öldungadeildarþingmaðurinn og nefndarmaðurinn Amy Klobuchar birtir hér Twitter-skilaboð sem sögðu kjósendum að þeir gætu kosið með textaskilaboðum. Forsvarsmenn Facebook, Twitter og Google sátu fyrir svörum hjá öldungadeildarnefnd Bandaríkjaþings í gær. AFP

Lögfræðingar Facebook, Twitter og Google áttu í vök að verjast gagnvart öldungadeildarnefnd Bandaríkjaþings sem í gær spurði þá í þaula úti í það hvort Rússar hafi nýtt sér samfélagsmiðla til að hafa áhrif á bandarísku forsetakosningarnar í fyrra.

Voru þeir m.a. látnir svara spurningum nefndarinnar um glæpi og hryðjuverk og hvers vegna það hafi ekki vakið neina athygli að greitt hafi verið fyrir stjórnmálaauglýsingar með rússnesku fé.

BBC segir þingmenn nú skoða að koma á nýjum reglugerðum fyrir samfélagsmiðla í kjölfar meintra afskipta Rússa af kosningunum.

Hétu fyrirtækin því að herða auglýsingastefnu sína og reglur.

Öldungadeildarþingmaðurinn og demókratinn Al Franken spurði forsvarsmenn Facebook, sem hefur fengið á sig stóran hluta gagnrýninnar, hvers vegna það hafi ekki vakið neina tortryggni að greitt hefði verið í rússneskum rúblum.

„Þegar horft er til baka hefðum við átt að hafa víðari linsu,“ sagði Colin Stretch, einn aðalráðgjafi Facebook. „Þetta eru merki sem að við misstum af.“

Greint var frá því í gær að allt að 126 milljónir bandarískra Facebook-notenda kunni að hafa séð efni sem birt var með stuðningi Rússa á sl. tveimur árum.

Búist er við að lögfræðingar samfélagsmiðlanna muni einnig vera látnir sitja fyrir svörum hjá þingnefndinni í dag, en þingmenn eru nú að hugleiða að láta reglur sem ná í dag yfir sjónvarp, útvarp og gervihnattaútsendingar ná einnig yfir samfélagsmiðla.

Fyrirtækin hafa heitið bót og betrun og segjast hafa aukið vinnu við að bera kennsl á botta og ruslpóst, auk þess sem gera eigi augljósara varðandi pólitískar auglýsingar að þar sé kostað efni. Hefur Facebook m.a. sagt að fyrirtækið geri ráð fyrir að hafa tvöfaldað fjölda starfsmanna í öryggismálum fyrir lok þessa árs og að þeir verði þá 20.000 talsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka