Neita að yfirgefa búðirnar

AFP

Flóttafólk, sem neitar að yfirgefa flóttamannabúðir ástralskra stjórnvalda á Papúa Nýju-Gíneu, er án vatns, rafmagns og matarbirgðir eru á þrotum. Búðunum var formlega lokað fyrir tveimur dögum en þar sem flóttafólkið óttast hvað bíður þess neitar það að yfirgefa eyjuna.

Sameinuðu þjóðirnar hvetja áströlsk yfirvöld til þess að binda endi á neyðarástandið í búðunum á Manus-eyju, sem er hluti Papúa Nýju-Gíneu-eyjaklasans. 

Flóttamannabúðirnar voru settar upp til þess að taka á móti hælisleitendum í Ástralíu en landið tekur nánast ekki við neinum flóttamönnum. Búðunum var formlega lokað á þriðjudag eftir að hæstiréttur PNG komst að þeirra niðurstöðu að þær stæðust ekki stjórnarskrá landsins. 

AFP

Um 600 menn hafa lokað sig inni í búðunum og þrátt fyrir að búið sé að loka fyrir rennandi vatn og rafmagn neita þeir að yfirgefa búðirnar. Matarbirgðir eru á þrotum en þeir segjast óttast um öryggi sitt verði þeir fluttir í flóttamannamiðstöðvar annars staðar. Ástæðan fyrir ótta þeirra er mikil andúð íbúa í garð flóttafólks. 

Flóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) ítrekaði í dag beiðni um að áströlsk stjórnvöld grípi til aðgerða varðandi flóttafólkið. Ástandið í búðunum sé óásættanlegt og ekki bíði þess betri vist ef það yfirgefi búðirnar.

Mennirnir sem enn hafast við í búðunum eru að reyna að safna vatni í ruslafötur, einn þeirra, Behrouz Boochani sem er flóttamaður frá Íran, skrifar á Twitter í dag að flóttafólkið væri að grafa í jörðina í leit að vatni.



Behrouz Boochani er kúrdískur blaðamaður sem flúði frá Íran en hann hefur verið í haldi í búðunum á Manus-eyju í meira en fjögur ár. Hann var sæmdur fjölmiðlaverðlaunum Amnesty International í Ástralíu í gær fyrir þrotlaus skrif sín um ástandið í búðunum. 

Talsmaður UNHCR, Lam Nai Jit, óttast að ástandið eigi bara eftir að versna. Veðrið vinni heldur ekki með fólkinu þar sem það er hrikalega heitt og rakt á eyjunni.

Hann segir að samskipti eyjaskeggja og flóttamanna hafi versnað eftir að hæstiréttur komst að niðurstöðu sinni því hvorugur aðilinn væri búinn undir það sem biði þeirra.

Margir hafa gagnrýnt áströlsk yfirvöld varðandi aðbúnað fólks sem sækir um hæli þar. Meðal þeirra sem gagnrýna stöðuna á Manus-eyju er ástralski leikarinn Russell Crowe sem segir hana til skammar. Crowe skrifar á Twitter að hann sé reiðubúinn til þess að leggja sitt af mörkum. Hann telur sig geta tekið á móti sex flóttamönnum á heimili sínu og aðstoðað þá við að fá vinnu. „Ég er vissum að það eru fleiri Ástralar sem eru til í að gera hið sama,“ skrifar hann. 

Nýsjálensk yfirvöld hafa boðist til þess að taka við 150 flóttamönnum úr flóttamannabúðunum en áströlsk stjórnvöld hafa neitað beiðninni þrátt fyrir að hafa lokað búðunum og að þær miðstöðvar sem áttu að koma í þeirra stað séu ekki tilbúnar.

Skýrsla Amnesty International um Manus-búðirnar

Behrouz Boochani tók þessa mynd frá búðunum á Manus-eyju.
Behrouz Boochani tók þessa mynd frá búðunum á Manus-eyju. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert