Þóttist vera fórnarlamb Grenfell-brunans

Grenfell-turninn varð alelda á stuttum tíma og talið er að …
Grenfell-turninn varð alelda á stuttum tíma og talið er að um 80 manns hafi látið lífið í brunanum. AFP

Svikahrappur hefur viðurkennt að hafa nýtt sér brunann í Grenfell-turninum til að svíkja sem samsvarar rúmum 1,7 milljónum króna úr sjóðum fyrir fórnarlömb. Hinn 52 ára Anh Nhu Nguyen laug til um að hafa misst eiginkonu og son í brunanum og lék fórnarlamb í tvær vikur í kjölfar brunans sem varð á áttunda tug íbúa að bana. BBC greinir frá.

Hann kvaðst hafa misst allt sem hann átti í brunanum og tók meðal annars í hönd Karls Bretaprins þegar hann heimsótti fórnarlömbin.

Upp um hann komst þegar hann gaf upp mismunandi íbúðarnúmer, en sumar íbúðanna voru ekki til og í öðrum höfðu alvörufórnarlömb brunans búið. Þá hafði hann þegar þegið fjármuni frá góðgerðarsamtökum og bæjarráðum. Auk þess fékk hann gistingu á hóteli, mat og raftæki.

Nguyen fæddist í Víetnam en fluttist til Bretlands á níunda áratug síðustu aldar og er breskur ríkisborgari. Hann hefur verið dæmdur sekur 28 sinnum fyrir 56 lögbrot á rúmum 30 árum, meðal annars þjófnað, íkveikjur og alvarlegar líkamsmeiðingar.

Hann hefur játað sök í málinu en sýndi engin merki iðrunar þegar hann kvað upp yfirlýsingu sína fyrir túlki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert