Fékk 20 ár fyrir að hjálpa bróður sínum

Teikning af Abdelkader Merah við dómsuppkvaðninguna. Hann var fundinn sekur …
Teikning af Abdelkader Merah við dómsuppkvaðninguna. Hann var fundinn sekur um að hafa leiðbeint og hvatt bróður sinn varðandi áhuga hans á heilögu stríði og fyrir að hafa hjálpað honum að stela vespu sem hann notaði við árásina. AFP

Bróðir Mohamed Merah, vígamannsins sem myrti sjö manns í Toulouse árið 2012 var í dag dæmdur til 20 ára fangelsisvistar. Dómstóllinn úrskurðaði bróðurinn, Abdelkader Merah, sekan um brot á hryðjuverkalögum en taldi hann ekki hafa átt beinan þátt í árásinni.

Mohamed Merah var skotinn til bana af lögreglu eftir 32 tíma umsátur  í mars 2012. Merah hafði áður myrt sjö manns. Hann skaut þrjú börn og kennara í skóla sem rekinn er af gyðingum og þrjá hermenn og gaf það upp að árásin væri framin í nafni al-Quaeda hryðjuverkasamtakanna.

Dómstóllinn taldi Abdelkader Merah sekan um brot á hryðjuverkalögum þó að hann hefði ekki átt beinan þátt í árásinni og dæmdi einnig annan mann, Fettah Malki, í 14 ára fangelsi vegna málsins að því er BBC greinir frá.  

Var Abdelkader sakaður um að leiðbeina bróður sínum og örva hjá honum áhuga á heilögu stríði. Þá var hann einnig fundinn sekur um að hafa hjálpað Mohamed að stela vespunni sem hann notaði í árásinni.

Abdelkader neitaði alfarið ásökununum og verjendur hans sögðu einu ástæðu þess að saksóknari hefði ákært hann væri sú að ekki væri hægt að dæma Mohamed.

Fettah Malki var fundinn sekur um að hafa útvegað Mohamed vopn, skotfæri og skothelt vesti.

Mohamed notaði myndavél sem hann hafði komið fyrir á hjálmi sínum til að mynda morðin og notaði lögreglan þær upptökur við rannsókn á málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert