Hvíta húsið gerir lítið úr loftlagsskýrslu

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. AFP

Talsmenn Hvíta hússins í Washington gera ekki mikið úr skýrslu um loftlagsbreytingar sem 13 alríkisstofnanir í Bandaríkjunum unnu að. Niðurstöður skýrslunnar eru þvert á fullyrðingar sem Trump Bandaríkjaforseti, sem og fleiri í ríkisstjórn hans, hafa látið falla um loftslagsmál.

Í skýrslunni segir, að það séu yfirgnæfandi líkur á því að aðgerðir af mannavöldum eigi langstærstan þátt í hlýnun jarðar. Þetta kemur fram á vef BBC.

Talsmaður Hvíta hússins segist styðja þá rannsóknarvinnu og umræður sem hafi átt sér stað, en bætti við að veðurfarið væri síbreytilegt.

Raj Shah, sem stýrir upplýsingamálum hjá Hvíta húsinu, segir að það liggi ekki fyrir með vissu hversu viðkvæmt loftslagið á jörðinni er gagnvart losun gróðurhúsalofttegunda. 

Trump, sem er nú í opinberu ferðalagi um Asíu, lét eitt sinn hafa eftir sér að Kínverjar bæru ábyrgð á hlýnun jarðar. Tilgangurinn væri að draga úr samkeppnishæfni Bandaríkjanna. 

Fyrr á þessu ári greindi forsetinn frá því að hann myndi draga Bandaríkin út úr Parísarsáttmála sem leiðtogar 195 ríkja heims undirrituðu árið 2015. Sáttmálinn miðar að því að þjóðir heims leggi sitt af mörkum til þess að draga úr losun eiturefna út í andrúmsloftið svo stemma megi stigu við hækkun hitastigs jarðarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert