Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur óskað eftir rannsókn á framboði Hillary Clinton í kjölfar þess að Elizabeth Warren, öldungadeildarþingmaður Demókrata, svaraði því játandi í viðtali á CNN þegar hún var spurð hvort Clinton hefði hlotið forskot í baráttunni við Bernie Sanders um að verða frambjóðandi Demókrata í forsetakosningunum. BBC greinir frá.
Warren, sem studdi framboð Clinton, var að svara ásökunum fyrrverandi stjórnarmeðlims miðstjórnar Demókrataflokksins, Donnu Brazile, sem gaf nýlega út bók um aðdraganda þess að Trump komst í foretastól. Í bókinni kemur fram að miðstjórn Demókrataflokksins, DNC (Democratic National Committee), hafi verið fjársvelt og hafi skrifað undir fjáröflunarsamning við framboð Clinton í ágúst 2015.
Í bókinni segir Brazile að framboðið hafi veitt DMC fjárframlög í hverjum mánuði til að koma til móts við hvers kyns útgjöld. DMC átti að vera hlutlaus í kosningabaráttunni á milli Clinton og Sanders en stuðningsmenn Sanders hafa lengi haldið því fram að Clinton hafi notið sérstaks stuðnings miðstjórnarinnar.
Stuðningsmenn Clinton hafa þó bent á að DMC hafi einnig skrifað undir samning af svipuðum meiði við framboð Sanders.
Trump segir að almenningur í Bandaríkjunum eigi rétt á að málið verði rannsakað til hlítar og hefur meðal annars tjáð sig um málið á Twitter. Þarna hafi raunverulega samráðið átt sér stað.
Bernie Sanders hefur einnig tjáð sig um málið á Twitter, en í svari við færslu Trumps segir hann að þetta dugi ekki til að beina athygli almennings frá áætlunum Trumps um að gefa milljarðamæringum skattaafslátt, afnema heilbrigðisþjónustu milljóna Bandaríkjamanna og vísa loftslagsbreytingum á bug. „Sinntu starfi þínu,“ segir hann.