Skotárás í kirkju í Texas

mbl.is

Talið er að allt að fimmtán manneskjur séu særðar eftir skotárás í Sutherland Springs, skammt frá borginni San Antonio í Texas.

Óstaðfestar fregnir herma að byssumaðurinn hafi verið skotinn til bana.

Maðurinn er sagður hafa gengið inn í kirkju babtista og hafið skothríð klukkan 11.30 að staðartíma.

Tveggja ára barn var á meðal þeirra sem særðust.

Vitni segja að hátt í 20 skotum hafi verið hleypt af í kirkjunni. 

Uppfært kl. 19.48:

Talið er margir hafi látist í árásinni.

Árásarmaðurinn er sagður hafa gengið inn í kirkjuna á meðan á morgunmessu stóð og hafið skothríðina en um fimmtíu manns sækja messuna að jafnaði.

Rétt rúmur mánuður er liðinn síðan 58 manns voru skotin til bana í Las Vegas. Rúm tvö ár eru liðin síðan hvítur þjóðernissinni, Dylann Roof, gekk inn í kirkju sem nánast eingöngu svartir sækja í Charleston í Suður-Karólínu og skaut níu manns til bana.

„Við biðjum fyrir þeim sem lentu í þessu illskuverki,” sagði Greg Abbott, ríkisstjóri Texas á Twitter. „Við þökkum lögreglunni fyrir skjót viðbrögð.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert