Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segir að þjóð sín gangi í gegnum erfiða tíma en að byssur beri ekki ábyrgð á blóðbaðinu í gær. „Ég tel að geðheilsa sé vandamálið hér,“ sagði Trump þegar hann ræddi við fréttamenn í Tókýó í morgun.
Hann segir byggja þetta á fyrstu fréttum af árásinni sem kostaði 26 manns lífið. „Þetta alvarlega sturlaður einstaklingur,“ bætti Trump við. „Þetta tengist ekki byssum,“ ítrekaði Trump og sagði „þetta er geðheilbrigðisvandamál á hæsta stigi.“
Árásarmaðurinn, Devin Kelley, er 26 ára fyrrverandi hermaður í bandaríska flughernum. Hann gekk inn í kirkju baptista í 400 manna bæ, Sutherland Springs, í Texas í gær, svartklæddur frá toppi til táar og í skotheldu vesti. Hann var var vopnaður hríðskotariffli og lét skotunum rigna yfir kirkjugesti. Fólkið sem lést er frá fimm ára upp í 72 ára. Yfir 20 særðust þar á meðal lítil börn sem eru alvarlega særð á sjúkrahúsi.
Lögreglan hefur ekki nafngreint árásarmanninn en segir að um ungan hvítan karlmann sé að ræða. Hann hafi hafið skothríðina þegar hann gekk inn í kirkjuna klukkan 11:20 að staðartíma í gærmorgun.
CNN hefur hins vegar fengið nafn árásarmannsins staðfest líkt og fleiri fjölmiðlar. Kelly fannst látinn í bíl sínum eftir að hafa flúið að vettvangi. Enn er óljóst hvort hann framdi sjálfsvíg eða hvort hann lést af völdum skotsárs en bæjarbúi elti hann og skaut á hann þegar Kelly fór frá kirkjunni.
Í apríl 2016 keypti Kelly riffilinn sem hann notaði í árásinni, Ruger AR-556, í Academy Sports & Outdoors versluninni í San Antonio að sögn lögreglu. Kelly sagði í umsókn sem hann fyllti út við kaupin að hann væri ekki á sakaskrá. Hann gaf upp heimilisfang í Colorado Springs í Colorado-ríki, þegar hann keypti byssuna, segir í frétt CNN.
Kelly gegndi herþjónustu í Holloman herstöð bandaríska flughersins í Nýju-Mexíkó frá árinu 2010 þangað til hann var leystur frá störfum. Hann var dæmdur fyrir herrétti árið 2012 fyrir að hafa ráðist á eiginkonu sína og barn þeirra. Hann var dæmdur í árs-fangelsi og vísað úr hernum með skömm árið 2014, samkvæmt upplýsingum CNN en taka skal fram að afar misvísandi fréttir hafa birst um hversu langan dóm hann fékk og hvort hann hafi afplánað í fangelsi eður ei.
Að sögn Freeman Martin, svæðisstjóra hjá stjórnvöldum í Texas, greip bæjarbúi riffil sinn og réðst á Kelley þegar hann var á útleið úr kirkjunni. Kelley missti riffil sinn og flúði af vettvangi. Nokkru síðar fannst Kelley látinn í bifreið sinni. Fjölmörg vopn fundust í bifreiðinni.
Trump segir árásina skelfilega og verk hins illa. Hann hefur fyrirskipað að flaggað verði í hálfa stöng við Hvíta húsið og alríkisbyggingar í dag.