Rússneskir stjórnmálamenn hafa gert lítið úr því sem fram kemur í Paradísar-skjölunum. Þar kemur fram að rússneskir embættismenn og ríkisfyrirtæki hafi átt leynireikninga á Bermúda.
Formaður utanríkisnefndar rússnesku öldungadeildarinnar, Konstantin Kosachev, segir að engin lög hafi verið brotin og að lekinn væri stormur í vatnsglasi.
Samkvæmt Paradísar-skjölunum, en þau byggja meðal annars á upplýsingaleka frá Appleby, lögmannsstofu á Bermúda, fjárfesti og fjármagnaði VTB-bankinn, sem er annar stærsti banki Rússlands, í Twitter. Bankinn er á bannlista bandarískra yfirvalda. Eins fjármagnaði Gazprom-orkufyrirtækið kaup á hlut í Facebook.
Kosachev gerir lítið úr Paradísar-skjölunum og segir textann sem birtur hafi verið af fjölmiðlum helst minna á fantasíu.
„Skjölin koma innan úr lögfræðistofunni Appleby á Bermúdaeyjum og innan úr Asiaciti-sjóðnum í Singapúr. Í skjölunum eru einnig upplýsingar úr 19 fyrirtækjaskrám á þekktum lágskattasvæðum eins og Möltu, Bermúda og Cayman-eyjum. Það var þýska blaðið Süddeutsche Zeitung sem komst yfir gögnin og deildi með alþjóðlegum samtökum rannsóknarblaðamanna, ICIJ, Reykjavik Media og 96 fjölmiðlum í 67 löndum,“ segir á vef Reykjavik Media.
Alexei Chepa, sem stýrir viðskiptanefnd neðri deildar rússneska þingsins, segir að samningar VTB og Gazprom tengist ekki stjórnmálum á nokkurn hátt. Þetta séu bara viðskipti.
Rússneskir fjölmiðlar hafa ekki birt nein svör frá Sibur-orkufyrirtækinu sem er að hluta í eigu tengdasonar Vladimír Pútín Rússlandsforseta, Kirill Shamalov. Samkvæmt Paradísar-skjölunum tengist skipafélag, sem er að hluta í eigu viðskiptaráðherra Bandaríkjanna, Wilbur Ross, Sibur. Shamalov seldi stærsta hluta eignar sinnar í Sibur fyrr á árinu og á nú 3,9% hlut, samkvæmt Vedomosti-viðskiptablaðinu. Russian Forbes-tímaritið áætlaði nýverið að auður Shamalov næmi 1,3 milljörðum Bandaríkjadala, sem svarar til 139 milljarða króna.
Eini fjölmiðillinn í Rússlandi sem tekur þátt í greiningu á gögnunum er Novaya Gazeta en það er dagblað í eigu stjórnarandstæðinga. Í frétt blaðsins kemur fram að unnið hafi verið að upplýsingaöflun í eitt ár.
Samkvæmt Novaya Gazeta tengist lekinn ekki Rússum mikið, ekkert frekar en Íslendingum, en það er rakið til þess að Appleby hafi spurt erfiðra spurninga þegar viðskiptavinir leituðu til lögmannsstofunnar varðandi hvaðan fjármunirnir hafi komið upprunalega ólíkt lögmannsstofunni Mossack Fonseca sem Panama-skjölin byggðu á, segir í frétt Novaya.
Rússland er ekki einu sinni á topp tíu listanum yfir þau lönd þar sem borgarar landsins nýtt sér þjónustu Appleby-lögmannsstofunnar, segir í frétt Novaya Gazeta.
Tveir þingmenn á rússneska þinginu eru nafngreindir í Paradísar-skjölunum, samkvæmt Novaya Gazeta. Það eru þeir Alexei Jezubov, sem er í sama flokki og Pútín, og Vladimír Blotskí, sem er þingmaður Kommúnistaflokksins. Jezubov segir í viðtali við RIA Novosti að hann hafi ekkert heyrt af þessum leka.
Marina Sechina, sem er fyrrverandi eiginkona forstjóra Rosneft, Igor Sechin, eins helsta bandamanns Pútíns, er ein af þeim sem nefnd eru í skjölunum.