Tveir menn eru nú hylltir sem hetjur eftir að hafa elt uppi manninn sem grunaður er um að hafa myrt að minnsta kosti 26 manns í kirkju í Texasríki í gærdag. Annar þeirra, Johnnie Langendorff, segist hafa elt byssumanninn eftir að hafa séð hann skiptast á skotum við annan mann.
„Byssumaðurinn flúði í bílnum sínum og hinn maðurinn kom og sagði að við þyrftum að elta hann,“ er haft eftir Langendorff á vef BBC.
Árásin átti sér stað við messuhald í smábænum Sutherland Springs. Að minnsta kosti 26 létu lífið, á aldrinum fimm til 72 ára, og tuttugu til viðbótar særðust.
„Hann kom að bílnum mínum í nauð, vopnaður byssu. Hann útskýrði mjög fljótt hvað hafði gerst, settist inn í bílinn og ég vissi að þá var tími til að taka af stað.“
Ekki eru enn kunn nein deili á umræddum manni.
Langendorff segir þá tvo hafa keyrt á allt að 150 kílómetra hraða á klukkustund, þar til byssumaðurinn missti stjórn á bílnum sínum og nam staðar við árekstur.
„Við leiddum lögregluna að honum. Allir aðrir voru að fara að kirkjunni,“ segir Langendorff.
Hinn grunaði árásarmaður fannst síðar í bílnum, látinn af völdum skots úr eigin byssu. Í bílnum fundust fleiri vopn.