Mikið áfall fyrir lítið samfélag

„Fólk var enn að ganga út úr kirkjunni, safnaðarmeðlimir, þaktir í blóði. Það voru allir í áfalli, enginn sagði neitt. Fólkið hélt bara um höfuðið á sér og reyndi að takast á við þetta.“

Þannig lýsir David Casillas því þegar hann kom að baptistakirkjunni í Sutherland Springs í Texasríki í Bandaríkjunum í gær eftir að hinn 26 ára gamli Devin Patrick Kelley hafði myrt 26 í kirkjunni og sært fjölmarga til viðbótar.

Casillas, sem er 55 ára að aldri, sá lík liggjandi fyrir utan kirkjuna sem minnti hann á það þegar sonur hans var myrtur í stórborginni Houston árið 2005. Hann hafði flutt úr stórborginni í kjölfarið til þess að forðast byssuofbeldi. 

Hin 54 ára gamla Terrie Smith hafði ætlað að eiga rólegan sunnudag þegar hún heyrði skothríðina í kirkjunni. Hún rekur veitingahús og bensínstöð sem stendur hinum megin við götuna frá kirkjunni. Hún hafði ætlað að fylla á bílinn sinn.

Smith varð áhorfandi að því þegar Kelley réðist á kirkjuna og skaut á jafnt karla, konur og börn sem voru við messu í kirkjunni. „Hann hélt bara áfram,“ hefur AFP eftir henni. Nema þegar hann var að hlaða byssuna á nýjan leik.

„Þá stoppaði þetta í smástund en síðan gat maður heyrt byssuskotin þegar hann var að skjóta inni í kirkjunni,“ segir hún ennfremur. Smith missti nána vinkonu í árásinni sem lést ásamt tveimur börnum sínum. Það þriðja er alvarlega sært.

Mörg vitni urðu að fjöldamorðinu, þar á meðal ættingjar fólks sem var myrt. Mörg börn voru á meðal hinna látnu, á aldrinum 18 mánaða til 77 ára. Kirkjan er mikill miðpunktur í bæjarlífinu. Casillas bað konunnar sinnar þar.

Vegna smæðar bæjarins þekkja nær allir bæjarbúar einhvern af þeim sem létu lífið. „Ég veit ekki hvernig mér á að líða nákvæmlega núna, reiður eða sorgmæddur,“ segir Kit Collman, 36 ára. Fjölmargir bæjarbúar eru í sömu stöðu.

Talið er að árásin hafi tengst deilum Kelleys við fyrrverandi tengdafjölskyldu sína, einkum fyrrverandi tengdamóður sína. Þá hefur honum verið lýst sem „herskáum trúleysingja“ sem hafi farið hörðum orðum um Guð og trúað fólk á samfélagsmiðlum.

AFP
AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert