John Holcombe fór ásamt konu sinni, fimm börnum og foreldrum til kirkju í gær. Eiginkona hans, sem var komin átta mánuði á leið, þrjú börn hans og foreldrar eru meðal þeirra sem voru skotin til bana af Devin Kelley í gær.
Þrjú barna þeirra Crystal og Johns; Megan, Emily og Greg, létust öll í árásinni en tvær dætur þeirra eru með alvarlega áverka á sjúkrahúsi.
Norska ríkisútvarpið, AP og New York Times greina frá þessu. Fólkið sem lést í árásinni er á aldrinum 5 til 72 ára og samkvæmt upplýsingum sem San Antonio Express-News hefur eftir bæjarbúa missti náinn vinur hans átta ættingja í árásinni. Ekki er vitað hvort þar er átt við Holcombe-fjölskylduna en einhverjir miðlar greina frá því að bróðir Johns hafi látist ásamt dóttur sinni í skotárásinni.
Dóttir prestsins, Annabelle Pomeroy, 14 ára, er meðal þeirra sem létust og vitað er að tvö börn særðust lífshættulega. Yfir 20 særðust og er hluti þeirra í lífshættu.
„Sutherland Springs er smábær þar sem allir þekkja alla,“ segir L.G. Moore, sem rekur Holiday RV Park, sem er skammt frá kirkjunni. Allir bæjarbúar þekktu einhvern sem lést í árásinni bætti hann við í samtali við AP.
„Þeir segja að bæjarbúar séu 400 talsins og þá telurðu með hverja skepnu, hunda og ketti. Sennilega eru bæjarbúar ekki meira en 200 talsins,“ bætir hann við.