Eitt arðbærasta fyrirtæki heims, Apple, er meðal þeirra fyrirtækja sem finna má í Paradísarskjölunum, risastórum gagnaleka á skjölum sem tengjast fjármagni á aflandseyjum.
Um 100 fjölmiðlar rannsaka nú skjölin, þar á meðal BBC Panorama. Alls eru 13,4 milljónir skjala í Paradísarskjölunum.
Í skjölunum kemur fram, og BBC greinir frá, hvernig tæknirisinn hefur komist hjá því að greiða milljarða dollara í skatta með því að greiða umdeildan skatt á Írlandi og koma fjármagni fyrir í skattaparadís.
Í ágúst í fyrra var Apple dæmt til að greiða írska ríkinu 13 milljarða evra vegna vangoldinna skatta. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins taldi skattafríðindi fyrirtækisins ólögleg.
Frétt mbl.is: Apple þarf að greiða 13 milljarða evra
Samkvæmt upplýsingum úr skjölunum mun fyrirtækið hafa flutt gríðarlega mikið fjármagn, um 252 milljarða dollara, til eyjunnar Jersey, sem er stærsta eyja Channel-eyjaklasans.
Forsvarsmenn Apple segja að skattafyrirkomulag fyrirtækisins hafi ekki lækkað skattagreiðslur þess. Fyrirtækið sé enn þá heimsins stærsti skattgreiðandi og hafi greitt um 35 milljarða dollara í fyrirtækjaskatt síðastliðin þrjú ár. Þá hafi fyrirtækið farið eftir öllum lögum og reglum.
Með því að greiða skatta á Írlandi átti fyrirtækið að greiða 12,5% skatt í stað 35% líkt og í Bandaríkjunum. Samkvæmt Paradísarskjölunum greiddi Apple hins vegar aðeins 5% skatt af hagnaði sínum utan Bandaríkjanna og nokkur ár fór hlutfallið undir 2%.