Árásarmaðurinn sem varð 26 kirkjugestum að bana í Texas á sunnudag flúði af geðdeild árið 2012.
Þetta kemur fram í gögnum lögreglunnar í El Paso. Í frétt BBC kemur fram að lögreglufulltrúar sem handtóku Devin Kelley þegar hann flúði af geðdeildinni fyrir fimm árum segi að hann hafi „stofnað sjálfum sér og öðrum í hættu“.
Kelley var sendur á geðdeild á sjúkrahúsi eftir að hafa verið stefnt fyrir herrétt fyrir að hafa beitt þáverandi eiginkonu sína og stjúpson ofbeldi.
Í skýrslu lögreglunnar kemur einnig fram að Kelley hafi hótað yfirmönnum sínum í hernum lífláti.
Að sögn yfirvalda hefði stefnan átt að koma í veg fyrir að Kelley gæti átt skotvopn. Hann er sagður hafa gefið rangar upplýsingar þegar hann fyllti út skjöl í tengslum við kaup hans á Ruger-árásarriffli í apríl 2016 í verslun í San Antonio sem hann síðan notaði við fjöldamorðin. Sagðist hann eiga fyrir nokkur vopn sem hann hefði keypt í Texas og Colorado.
Kelley var vistaður á geðdeild í Santa Teresa í New Mexico, um 160 kílómetra frá borginni El Paso. Sá sem tilkynnti um hvarf hans segir að Kelley hafi „glímt við andleg veikindi“.
Seinna sama ár játaði Kelley fyrir dómstóli í hernum að hafa beitt þáverandi eiginkonu sína og stjúpson ofbeldi. Hann var dæmdur til eins ár fangelsisvistar í herfangelsi.
Rannsókn árásarinnar í kirkju baptista í bænum Sutherland Springs er enn í fullum gangi. Rannsóknarmenn alríkislögreglunnar reyna nú að ná gögnum úr síma Kelley í þeim tilgangi að varpa frekara ljósi á hvað honum gekk til með árásinni.