Karl Bretaprins í Paradísarskjölunum

Nafn Karls Bretaprins má finna í Paradísarskjölunum, en hann mun …
Nafn Karls Bretaprins má finna í Paradísarskjölunum, en hann mun hafa fjárfest leynilega í fyrirtæki á Bermúda sem hagnaðist á breyttum samningum í loftslagsmálum. AFP

Karl Bretaprins beitti sér fyrir því að breyta samningum um loftslagsmál án þess að greina frá því að einkahlutafélag hans hefði fjárhagslega hagsmuni af því í gegnum félög í skattaskjólum.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í Paradísarskjölunum, risa­stór­um gagnaleka á skjöl­um sem tengj­ast fjár­magni á af­l­ands­eyj­um.

Meðal þekktra nafna sem hafa komið upp í skjölunum er móðir Karls, Elísabet Englandsdrottning, og fjölmargir stjórnmálamenn um heim allan, svo sem í Rússlandi, Bandaríkjunum og Kanada.

Frétt mbl.is: Drottningin með peninga á aflandseyjum

Í skjölunum kemur meðal annars fram að Karl hafi fjárfest leynilega í fyrirtæki á Bermúda sem myndi hagnast á breyttum samningum í loftslagsmálum. Fjárfestingin nam um 113.500 dollurum, sem jafngildir tæplega 12 milljónir króna.

Prinsinn segist ekki hafa átt beina aðkomu að fjárfestingunum. Alls fjárfesti hann um 3,9 milljónum dollara, eða um 412 milljónir króna, í fjórum aflandssjóðum á Cayman-eyjum. Fjárfestingarnar sem slíkar eru löglegar og ekkert bendir til þess að eigur prinsins séu í skattaskjólum.   

Talsmaður Clarence House, skrifstofu prinsins í Lundúnum, segir að afstaða prinsins í loftslagsmálum sé skýr. „Hann hefur varað við ógninni sem stafar af hlýnun jarðar í yfir 30 ár,“ hefur BBC Panorama eftir talsmanninum.

Karl er sem stendur staddur í opinberri heimsókn í Malasíu ásamt eiginkonu sinni, Camillu hertogaynju af Cornwall. 

Hér má lesa umfjöllun BBC Panorama í heild sinni um tengsl Karls Bretaprins við Paradísarskjölin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert