Bandaríski flugherinn rannsakar nú hvers vegna það láðist að upplýsa um að Devin Patrick Kelley hafi verið á sakaskrá hjá hernum. Kelley skaut 26 kirkjugesti til bana í smábæ í Texas á sunnudag. Hann var dæmdur fyrir heimilisofbeldi árið 2012 og samkvæmt dómi mátti hann hvorki eiga né kaupa byssur. Samt sem áður keypti hann riffilinn, sem hann notaði í árásinni, í verslun í San Antonio í apríl 2016.
Eftir að hafa skotið á allt sem fyrir honum varð í kirkjunni flúði hann af vettvangi og fannst látinn í bifreið sinni. Talið er að byssukúla, sem hann hleypti sjálfur af, hafi kostað hann lífið eftir átök við vopnaðan bæjarbúa sem elti Kelley ásamt öðrum. Kelley var einnig með fleiri skotsár eftir annað vopn en sín eigin.
Í yfirlýsingu sem flugherinn hefur sent frá sér kemur fram að frumrannsókn bendi til þess að upplýsingar um dóm Kelleys fyrir herrétti hafi ekki ratað í sakaskrá bandaríska ríkisins. Búið er að afhenda gögnin til ríkisins nú og verður málið rannsakað.
Ríkisstjóri Texas, Greg Abbott, hafði í gær greint frá því að lögum samkvæmt hafi Kelley ekki átt að eiga skotvopn eftir að hafa verið neitað um byssuleyfi af hálfu Texas-ríkis.
Kelley keypti árásarriffilinn í Academy Sports + Outdoors-versluninni í San Antonio. Verslunin hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem ættingjum þeirra sem létust er vottuð samúð.
Samkvæmt frétt BBC var Kelley vopnaður hálfsjálfvirkum riffli og með tvær skammbyssur þegar réðst til atlögu í kirkju baptista í bænum Sutherland Springs. Hann hafði rifist við fyrrverandi tengdamóður sínar fyrir árásina. Hann hringdi í föður sinn eftir að hafa verið skotinn af vopnuðum vegfarenda og tjáði honum að hann teldi að hann myndi ekki lifa þetta af.