Banna notkun á umdeildu eitri

Eitrið glýfosat er meðal annars notað til að drepa illgresi.
Eitrið glýfosat er meðal annars notað til að drepa illgresi. AFP

Leyfi til notkunar á umdeildu eitri til að drepa illgresi verður ekki endurnýjað innan aðildarríkja Evrópusambandsins.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins tilkynnti í dag að hreinn meirihluti fyrir endurnýjuninni hefði ekki náðst, en helmingur sambandsríkjanna 28 samþykkti áframhaldandi notkun eitursins. Meðal landa sem eru hlynnt áframhaldandi notkun á eitrinu eru Danmörk, Bretland og Holland. Lönd sem eru á móti eru meðal annars Belgía, Frakkland, Ítalía og Lúxemborg.

Carole Dieschbourg, umhverfisráðherra Lúxemborgar, lýsti ánægju sinni með ákvörðunina, stuttu eftir að hún var ljós og sagði hana vera fagnaðarefni fyrir heilsu og umhverfi Evrópubúa.

Málið fer fyrir áfrýjunarnefnd í nóvember, en að öllu óbreyttu mun leyfið renna út 15. desember næstkomandi.  

Eitrið sem um ræðir er glýfosat (e. glyphosate) og hafa Greenpeace og önnur umhverfisamtök innan Evrópu barist fyrir því að það verði bannað. Í síðasta mánuði afhentu meðlimir Greenpeace Evrópusambandinu undirskriftir 1,3 milljóna Evrópubúa sem krefjast þess að notkun á eitrinu verði hætt.

Rannsóknir á vegum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar og Alþjóðastofnunar um krabbameinsrannsóknir gefa til kynna að eitrið geti verið krabbameinsvaldandi.

Glýfosat er meðal annars að finna í plöntu­eitrinu Roundup, sem hefur verið notað hér á landi.

Notkun eitursins glýfosats var mótmælt í Brussel í dag.
Notkun eitursins glýfosats var mótmælt í Brussel í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert