Utanríkisráðherra og ráðherra innflytjendamála eru báðir andsnúnir því að hlé verði gert á brottvísun afganskra hælisleitenda í Noregi. Ine Eriksen Søreide utanríkisráðherra varar hins vegar Norðmenn við ferðalögum til Afganistan.
Hún og ráðherra innflytjendamála, Sylvi Listhaug, hafa báðar tjáð sig um málið á norska stórþinginu en hluti stjórnarandstöðunnar hefur lagt til að norsk yfirvöld geri hlé á endursendingum hælisleitenda til Afganistan.
Søreide, sem hefur ráðlagt Norðmönnum að ferðast ekki til Afganistan, segir að það sé allt annað mál þegar flóttamenn frá Afganistan, sem hafa fengið synjun um alþjóðlega vernd í Noregi, eru sendir aftur til Afganistan.
Stjórnarandstaðan í Noregi boðaði Søreide og Listhaug til sérstakrar umræðu um brottvísanir í norska stórþinginu, samkvæmt frétt VG.
Utanríkisráðuneytið mælir gegn ferðalögum til Afganistan en Útlendingastofnun (Utlendingsdirektoratet, UDI) skilgreinir Afganistan sem óöruggt land.
„Við megum ekki gleyma þeirri staðreynd að í mörgum löndum geta norskir ferðamenn staðið frammi fyrir hótunum sem íbúar viðkomandi lands gera ekki,“ sagði Søreide á þingi. Þar vísaði hún til hættunnar á að norskum ríkisborgurum yrði rænt af mannræningjum.
Listhaug segist alfarið á móti því að gert verði hlé á endursendingum til Afganistan líkt og tillaga stjórnarandstöðunnar felur í sér.
„Það er mikilvægt að ákvörðunin sé skilin á réttan hátt og ég mæli alfarið gegn því að þingið styðji tillögu um að gera hlé á endursendingum til Afganistan. Það gæti haft ófyrirséðar afleiðingar í för með sér,“ sagði Listhaug á þingi í gær.
Hún segir að ef breytt verði um stefnu geti það haft þær afleiðingar að hælisleitendur myndu streyma frá Afganistan til Noregs, samkvæmt frétt norska ríkisútvarpsins.
„Það eru fá svæði í Afganistan sem eru álitin svo hættuleg að allir þeir sem þaðan koma þurfi á vernd að halda,“ segir Listhaug.
Hún segir að hvert einstak tilvik sé skoðað og þeir Afganar sem eigi rétt á hæli fái það.
Alls verða 130 umsækjendur um hæli í Noregi og hafa fengið synjun 18 ára á þessu misseri. Af þeim eru 128 frá Afganistan.
Hluti norsku stjórnarandstöðuflokkanna hefur lagt til að hlé verði gert á endursendingum til Afganistan þangað til ástandið í landinu skánar. Væntanlega verða greidd atkvæði um tillöguna í næstu viku.
Søreide leynir því hins vegar ekki að verulega hafi dregið úr öryggi í Afganistan undanfarin ár.
„Vopnuð átök milli stjórnvalda í Afganistan og uppreisnarhópa standa enn yfir. Bardagar geisa í mörgum af 34 héruðum Afganistan og við höfum ítrekað sé hryðjuverk framin í bæði bæjum og borgum. Mjög margir hafa látist, bæði almennir borgarar og þeir sem taka þátt í bardögum,“ sagði ráðherrann á þingi.