Hrottaleg morð á níu manns í Japan hafa vakið umræðu um hvort ekki sé nauðsynlegt að herða reglur varðandi samfélagsmiðla en morðinginn komst í kynni við fórnarlömb sín á Twitter. Ríkisstjórn landsins ræðir nú möguleikann á að herða reglur um hvað megi birta á netinu.
Takahiro Shiraishi afhöfðaði fórnarlömb sín á baðherbergi íbúðar sinnar en fólkið átti það sameiginlegt að hafa kynnst honum á Twitter. Fórnarlömbin voru á aldrinum 15 til 26 ára.
En ekki eru allir á sama máli um að banna eigi fólki að tjá hugsanir sínar á netinu og benda á að oft geti skipt miklu fyrir fólk að geta tjáð tilfinningar sínar þar, ekki síst í landi þar sem umræða um sjálfsvíg er nánast bönnuð og þunglyndi má vart nefna opinberlega.
Nafn Shiraishi kom upp við rannsókn lögreglu á hvarfi 23 ára gamallar konu sem hafði skrifað á Twitter að hún vildi taka eigið líf. „Ég er að leita að einhverjum sem er reiðubúinn til að deyja með mér,“ skrifaði hún undir myllumerki tengdu sjálfsvígum.
Líkt og við önnur fórnarlömb sín notaði Shiraishi samfélagsmiðla til að táldraga hana. Sagðist hann vera reiðubúinn til að aðstoða hana við að fremja sjálfsvíg og jafnvel deyja með henni.
En á sama tíma var það Twitter sem stöðvaði hann því lögregla fékk unga konu til þess að nálgast hann á Twitter og koma á fundi þeirra. Fjórum dögum eftir að lík fórnarlamba hans fundust í íbúð hans í úthverfi Tókýó í síðasta mánuði setti Twitter nýjar reglur varðandi notkun á miðlunum. Þar kemur fram að notendur megi ekki kynna eða hvetja fólk til sjálfsskaða eða sjálfsvíga. En ekki er lagt bann við því að skrifa færslur um að viðkomandi vilji taka eigið líf.
Yfir 20 þúsund Japanar fremja sjálfsvíg á hverju ári en þeim hefur farið fækkandi allt frá árinu 2003. Samt hefur ekkert dregið úr sjálfsvígum ungs fólks og barna sem eru um leið virkust á samfélagsmiðlum. Á hverju ári fremja yfir 500 ungmenni yngri en tuttugu ára sjálfsvíg í Japan.