Breska lögreglan segir að búið sé að finna og bera kennsl á alla sem létu lífið þegar eldur kviknaði í Grenfell-háhýsinu í London í júní. Byggingin gjöreyðilagðist í brunanum og að sögn lögreglu lét 71 lífið.
Meðal þeirra sem létust er ungbarn sem fæddist andvana á sjúkrahúsi 14. júní, daginn sem eldurinn braust út í turninum sem taldi 24 hæðir.
Victoria King og dóttir hennar, Alexandra Atala, eru þær síðustu sem kennsl voru borin á með formlegum hætti. Þetta kemur fram á vef BBC.
Lögreglan segist bjóða ættingjum og öðrum sem syrja látna ástvini allan þann stuðning sem í boði er.
„Það hefur verið skýrt frá upphafi, að það hefur verið forgangsmál hjá okkur að finna alla þá sem létust, bera kennsl á þá og koma þeim aftur í hendur ættingja,“ sagði lögreglustjórinn Stuart Cundy.
„Teymi sérfræðinga, sem hafa verið að störfum í Grenfell-turninum og í líkhúsinu, hafa aukið getuna því sem var áður vísindalega hægt til að bera kennsl á fólk,“ segir Cundy.
Hann bætir við að hann hefði í fyrstu, eftir að hafa heimsótt turninn sjálfur, talið nær ógerlegt að finna og sækja lík allra sem létust, og bera á þau kennsl.
„Ég veit að hver og einn liðsmaður teymisins gerði allt sem í hans valdi stóð til að gera þetta að veruleika.“
Í júní var lögreglan með lista yfir 400 manns sem var saknað. Hluti þeirra var skráður undir mismundandi nöfnum eða nöfn þeirra misrituð. Í einu tilfelli var einn einstaklingur skráður 46 sinnum.
Mikil vinna fór í að rannsaka og finna alla þá sem var saknað. Þeirri vinnu lauk aðeins fyrir nokkrum vikum að sögn lögreglu.