Argentínski sjóherinn leggur nú aukinn kraft í leit að kafbát með 44 manna áhöfn, sem ekkert samband hefur náðst við í þrjá daga.
Maurico Macri, forseti Argentínu, segir alþjóðlegar björgunarsveitir nú taka þátt í leitinni ásamt heimamönnum og allt kapp lagt á að finna kafbátinn San Juan hið fyrsta.
Könnunarflaug frá NASA tekur einnig þátt í leitinni.
Þá hafa Bretar og nágrannaríki Argentínu boðið fram aðstoð, en kafbáturinn hvarf um 430 km úti fyrir ströndum landsins.
Við höfum hvorki séð hann né náð radarsambandi við kafbátinn,“ hefur BBC eftir Enrique Balbi, talsmanni sjóhersins.
Kafbáturinn var á leið frá Ushuaia, sem er syðsti oddur Suður Ameríku, og í herstöðina við Mar del Plata, sem er suður af Buenos Aires.
Síðustu samskipti kafbátsins við sjóherinn voru á miðvikudagsmorgun.
Argentínskur tundurspillir leitar nú suðaustur af Veldez-skaga þar sem síðast fréttist um ferðir kafbátsins. Engar vísbendingar hafa hins vegar enn borist um hvar kafbáturinn sé nú staddur.
Sterkir vindar og mikill öldugangur gerir leitina erfiðari, en talið er að samskiptaleysi við kafbátinn mætti rekja til rafmagnsleysis. Vinnureglur sjóhersins kveða á um að tapist samskipti þá eigi kafbátar að koma upp á yfirborðið. „Við búumst við að hann sé á yfirborðinu,“ segir Balbi.
Kafbáturinn er þýsk smíði frá 1983 og er sá nýjasti í argentínska flotanum.
Macri segir stjórnvöld vera í reglulegu sambandi við fjölskyldur áhafnarinnar. „Við deilum áhyggjum þeirra líkt og öll Argentína,“ skrifaði forsetinn á Twitter. „Við munum beita öllum nauðsynlegum ráðum til að finna ARA San Juan-kafbátinn eins fljótt og auðið er.“