Stormur hamlar leit að kafbátnum

ARA San Juan kafbáturinn með hluta áhafnar í höfninni í …
ARA San Juan kafbáturinn með hluta áhafnar í höfninni í Buenos Aires. Herinn segir áhöfn eiga að hafa nægt magn súrefnis og matarvistir. AFP

Stormviðri hefur gert björgunarsveitum og sjóher Argentínu erfitt fyrir með leit að kafbát sem hefur verið týndur frá því á miðvikudag með 44 manna áhöfn.

Greint var frá því fyrr í dag að  vonir hefðu vaknað um að finna kafbátinn eftir að Bandaríkjamenn námu merki frá gervihnetti sem talið var geta verið neyðarkall frá bátn­um.

Bandarískar flugvélar með sérfræðingum í leit úr lofti hafa tekið þátt í leitinni að kafbátnum ARA San Juan, en hann var um 432 km úti fyrir strönd Argentínu þegar síðast náði samband við hann.

Þá hefur rúmur tugur skipa og flugvéla frá Argentínu, Bandaríkjunum, Bretlandi, Síle og Brasilíu tekið þátt í leitinni.

Reyndi sjö sinnum að hafa samband

Leitaraðgerðir hafa einkum beinst að því að skanna yfirborð sjávar úr lofti, en mikil ölduhæð og sterkir vindar hafa hamlað leitaraðgerðum að sögn Gabriel Gonzalez, aðmíráls í sjóher Argentínu.

„Því miður er búist við að aðstæður verði áfram svipaðar næstu tvo sólarhringana,“ sagði Gonzales.

Argentínska varnarmálaráðuneytis segir að svo virðist sem kafbáturinn hafi sjö sinnum reynt að hafa samband í gegnum gervihnött í gær, ekki hefur þó fengist staðfest að gervihnattasímtölin haf verið frá kafbátnum.

„Í dag erum við búin að reyna að staðfesta þessi símtöl landfræðilega til að sjá hvort  þau samræmist einhverjum punktum á svæðinu sem gætu gefið til kynna að þetta sé San Juan-kafbáturinn,“ hefur Reuters-fréttastofan eftir Enrique Balbi talsmanni hersins.

Lausleg yfirborðsleit á um 80% svæðisins hefur til þessa ekki skilað neinum árangri, en að sögn Balbi á áhöfnin enn að hafa nægt magn súrefnis og matarbirgðir.

Kaf­bát­ur­inn var á leið frá Us­huaia, sem er syðsti odd­i Suður-Am­er­íku, og í her­stöðina við Mar del Plata, sem er suður af Bu­enos Aires og eru þrjú skip með radarbúnað sem stödd voru í Mar del Plata nú að reyna að fylgja slóð kafbátsins aftur á bak.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert