Tilkynnti um vélarbilun

Ættingjar skipverjanna komu saman við herstöðina í Mar del Plata …
Ættingjar skipverjanna komu saman við herstöðina í Mar del Plata í dag. AFP

Argentínski sjóherinn hefur greint frá því að kafbáturinn San Juan, sem ekkert samband hefur náðst við síðan á miðvikudag, hafi tilkynnt um vélarbilun í síðustu samskiptum sínum áður en hann hvarf. Þá var hann um 432 km úti fyr­ir strönd Arg­entínu.

Kaf­bát­ur­inn var á leið frá Us­huaia í Síle, sem er syðsti odd­ur Suður-Am­er­íku, og í her­stöðina við Mar del Plata, sem er suður af Bu­enos Aires í Argentínu en 44 manna áhöfn er um borð.

Sjóherinn sagði að tvö skip, sem leita að kafbátnum, hefðu numið hljóð sem væri nú til rannsóknar. Með því ætti að vera hægt að greina hvar skipið er en hljóðið hljómaði eins og menn væru að berja verkfærum í skipsskrokk.

Bróðir eins hinna 44 manna um borð í kafbátnum sagði argentínskum fjölmiðlum fyrr í dag að bróðir hans í kafbátnum hefði tjáð honum að báturinn ætti í einhverjum rafmagnsvandræðum.

Kafbáturinn San Juan.
Kafbáturinn San Juan. AFP

Talið er að áhöfn hafi einungis mat og drykk til hálfs mánaðar dvalar og jafnvel er talið að súrefni endist í skemmri tíma. Veður á leitarsvæðinu er slæmt en stormur hefur gert björgunarsveitarmönnum erfitt fyrir.

Er þetta í fyrsta skipti sem opinberlega hefur verið talað um vélarbilun og vandræði hjá bátnum. Þó hefur verið bent á að einhver vélarvandræði eigi ekki að skapa hættu vegna þess að nóg sé til af varabúnaði á jafnstórum bátum og kafbátnum San Juan.

Frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert