Eldfjallið Agung í Balí spjó ösku og reyk í 700 metra hæð í dag. Óttast er að eldgos muni brjótast út á næstunni en það mun verða í fyrsta skipti í 50 ár. Frá því í ágúst hefur fjallið rumskað þar sem aukin virkni hefur orðið og reykur stigið upp úr gosopi fjallsins. Mörg þúsund íbúar í nágrenni fjallsins flúðu í skjól í lok september af ótta við eldgos.
Hættustig hefur ekki verið hækkað vegna þessa, segir Made Indra hjá almannavörnum Balí. „Þetta eru ekki eldsumbrot,“ sagði Indra við AFP og bætti við: „Í eldgosi þeytast gosefni upp úr eldfjallinu. Í þetta skipti hefur það ekki orðið. Þetta er reykur.“
Balí er vinsæll viðkomustaður ferðamanna og er Agung í um 75 kílómetra fjarlægð frá ferðamannastaðnum Kuta á eyjunni. Yfirvofandi eldgos hefur þegar haft veruleg áhrif á komu ferðamanna til landsins og óttast yfirvöld frekari tekjumissi vegna óróleikans sem hófst í ágúst.
Eldfjallafræðingurinn Gede Suantika á Balí er ekki sammála þessu mati Indra. Hann vill að fólk sem býr í um sex kílómetra nálægð við eldfjallið ætti að flýja af svæðinu.
Eldfjallið Agung gaus síðast árið 1963 og þá létust um 1.600 manns.