Staðan í Simbabve í hnotskurn

Mynd af Robert Mugabe hangir í höfuðstöðvum ZANU-PF flokksins þar …
Mynd af Robert Mugabe hangir í höfuðstöðvum ZANU-PF flokksins þar sem flokksráðið ákvað nýverið að reka hann sem formann. AFP

Stjórnmálakreppan í Simbabve er sú dýpsta og flóknasta frá því landið fékk sjálfstæði árið 1980. Sá sem haldið hefur um valdatauma landsins allt frá þeim tíma, Robert Mugabe, neitar að stíga til hliðar sem forseti þrátt fyrir að herinn hafi í raun tekið völdin í landinu og fjölmenn mótmæli fari fram á götum úti. Þá stefnir þingið að því að ákæra hann og koma honum í kjölfarið frá völdum. 

En hvað hefur gerst í Afríkuríkinu Simbabve síðustu vikur?

6. nóvember: Mugabe rekur varaforsetann Emmerson Mnangagwa sem hafði verið nefndur sem eftirmaður hans á formannsstóli ZANU-PF flokksins. Tilgangurinn virðist hafa verið sá að búa til farveg fyrir eiginkonu hans, Grace Mugabe, til að komast til valda og taka við sem forseti. Þetta reitti her landsins til reiði en hershöfðingjarnir höfðu stutt varaforsetann Mnangagwa. 

 14. nóvember: Um kvöldið koma skriðdrekar að höfuðborginni Harare og skothríð heyrist í nágrenni heimilis Mugabes eftir að hershöfðinginn Constantino Chiwenga varar forsetann við komu sinni. 

Nemendur við Háskólann í Simbabve voru meðal þeirra sem mótmæltu …
Nemendur við Háskólann í Simbabve voru meðal þeirra sem mótmæltu á götum Harare í dag og kröfðust afsagnar forsetans aldna. AFP

Snemma næsta morgun eru farartæki hersins á götum borgarinnar en herinn neitar þó að um valdarán sé að ræða. Talsmaður hans flytur ávarp í sjónvarpi þar sem fram kemur að hinn 93 ára gamli forseti sé óhultur. Aðeins sé verið að beina sjónum að glæpamönnum í hans liði.

15. nóvember: Fram kemur að Mugabe hafi hringt í forseta Suður-Afríku, Jacob Zuma, og sagst vera í stofufangelsi en hafa það fínt.

Evrópusambandið og Bretar, sem áður fóru með völdin í landinu, hvetja til friðsamlegrar lausnar á ástandinu og stjórnvöld í Suður-Afríku vara við því að breytingar verði gerðar á stjórn Simbabve sem brjóti í bága við stjórnarskrá. 

16. nóvember: Mugabe ræðir við hershöfðingjana en neitar að stíga til hliðar sem forseti. Íbúar landsins höfðu vonast til þess að farsæll endir yrði bundinn á 37 ára stjórnartíð hans. 

Degi síðar mætir Mugabe til útskriftarathafnar í Harare og lætur eins og ekkert hafi í skorist.

Á sama tíma eru stjórnarandstæðingar að safna liði innan úr röðum flokks Mugabe, ZANU-PF, og koma fram í sjónvarpi og krefjast afsagnar forsetans.  Valdamikið ráð fyrrverandi hermanna krefst þess einnig að hann víki þegar í stað og hvetur fólk til að mótmæla. 

18. nóvember: Þúsundir manna þyrpast út á götur víðs vegar um landið og krefjast þess að Mugabe láti af embætti forseta. Á sama tíma fagnar fólkið langri valdatíð hans og eru mótmælin að mestu friðsamleg og í anda fagnaðar sjálfstæðisins árið 1980. Slíkar kröfugöngur hefðu þótt ómögulegar aðeins nokkrum vikum fyrr.

 19. nóvember: Flokksmenn ZANU-PF reka Mugabe sem leiðtoga og krefjast þess að hann láti af embætti forseta. Flokkurinn rekur einnig Grace eiginkonu hans og tilnefnir varaforsetann fyrrverandi, Mnangagwa, sem nýjan formann flokksins.

Þingmenn flokksins hóta einnig að kæra Mugabe og koma honum í kjölfarið frá, segi hann ekki af sér næsta dag. 

Íbúar Simbabve mótmæltu á götum úti í dag og báðu …
Íbúar Simbabve mótmæltu á götum úti í dag og báðu forseta sinn að láta gott heita eftir 37 ár á valdastóli. AFP

Mugabe hittir hershöfðingja og ávarpar að því loknu þjóðina í sjónvarpi. Í ávarpinu minnist hann ekki á afsögn eins og flestir höfðu vonast til. 

21. nóvember: Þar sem Mugabe sagði ekki af sér innan tilsetts frests segist flokkurinn ZANU-PF ætla að hefja kæruferli gegn honum. 

Mnangagwa gefur út yfirlýsingu og segir að íbúar landsins hafi „óseðjandi löngun“ í að Mugabe fari frá völdum. Ráð fyrrverandi hermanna hvetur enn og aftur til fjöldamótmæla. 

Kæruferlið sem þingmennirnir eru nú að hefja er nokkuð tímafrekt og krefst stuðnings meirihluta þingmanna í báðum deildum þingsins eftir að rannsóknarnefnd hefur gefið út skýrslu um ákæruefni.

Ef hann yrði kærður myndi það, samkvæmt stjórnarskrá landsins, þýða að núverandi varaforseti, Phelekezela Mphoko, tæki við völdum en sá er mikill stuðningsmaður Mugabes. Slíkt er ekki æskilegt að mati hershöfðingjanna. 

Mugabe er því í raun enn forseti landsins þó að völd hans séu lítil. Hann boðaði til ríkisstjórnarfundar í dag en flestir ráðherrarnir létu ekki sjá sig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert