Mladic dæmdur fyrir þjóðarmorð

Ratko Mladic fyrir dómi í morgun.
Ratko Mladic fyrir dómi í morgun. AFP

Fyrrverandi herforingi Bosníu-Serba, Ratko Mladic, var í dag sakfelldur af stríðsglæpadómstólnum í Haag fyrir þjóðarmorð í stríðunum sem geisuðu á Balkanskaganum í lok 20. aldar. Var hann dæmdur í lífstíðarfangelsi.

Frétt mbl.is: Slátrarinn frá Bosníu hetja í huga margra

Mladic var kallaður „Slátrarinn frá Bosníu“ en ákæran á hendur honum var í ellefu liðum. Þar á meðal fyrir glæpi gegn mannkyninu. Hann var sakfelldur fyrir fjöldamorð á rúmlega sjö þúsund múslimum í Bosníu, karlmönnum og drengjum, í borginni Srebrenica árið 1995 og umsátrið um borgina Sarajevo þar sem yfir 10 þúsund manns létu lífið.

Fjarlægja þurfti Mladic, sem er 74 ára gamall, úr dómsalnum skömmu áður en dómurinn var kveðinn upp þar sem hann öskraði á dómarana. Þeir höfðu hafnað beiðni lögfræðings hans um að stöðva dómsmálið vegna slæmrar heilsu hans.

Frétt mbl.is: Krefjast lífstíðardóms yfir Mladic

Mladic var í kjölfarið færður í annað herbergi þar sem hann gat fylgst með uppkvaðningu dómsins í sjónvarpi. Við upphaf málsins fyrir dómi í dag segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC að Mladic hafi virst afslappaður. Hafi hann brosað í myndavélarnar. 

Hins vegar hafi lögmenn Mladics óskað eftir að hlé væri gert eftir að 45 mínútur voru liðnar svo hann gæti farið á baðherbergið. Síðan lýsti einn lögfræðinga hans því yfir að Mladic hefði háan blóðþrýsting og bað um að málaferlið yrði stöðvuð.

Eftir að dómararnir höfðu þeirri beiðni öskraði Mladic á þá: „Þeir eru að ljúga, þið eruð að ljúga. Mér líður ekki vel.“

Dómsmálið gegn Mladic hófst árið 2012 en hann hafði lýst yfir sakleysi sínu í málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert