Mladic hyggst áfrýja dómnum

Darko Mladic ræðir við fjölmiðla.
Darko Mladic ræðir við fjölmiðla. AFP

Lífstíðardómi stríðsglæpadómstólsins í Haag yfir Ratko Mladic, fyrrverandi herforingja Bosníu-Serba, verður áfrýjað. Þetta hefur fréttaveitan AFP eftir syni Mladics.

Haft er eftir Darko Mladic að dómurinn sé „stríðsáróður“. „Þessi dómur er ósanngjarn og á skjön við staðreyndir og við munum berjast gegn honum með áfrýjun til þess að sanna að þessi dómur sé rangur,“ sagði hann við fjölmiðla í dag eftir dómsuppkvaðningu.

Faðir hans var sakfelldur í 10 ákæruliðum vegna stríðsins á Balkansskaga í lok síðustu aldar sem kostaði 100 þúsund manns lífið. Þar á meðal fyrir þjóðarmorð og stríðsglæpi. „Réttlætinu hefur í dag verið skipt úr fyrir stríðsáróður.“

Frétt mbl.is: Mladic dæmdur fyrir þjóðarmorð

Mladic yngri las síðan upp yfirlýsingu frá föður sínum þar sem sagði að réttarhöldin byggðu á lygi, dómstóllinn væri ekki dómstóll heldur hernaðaraðgerð á vegum NATO. Verið væri að reyna að gera löglega aðgerð Serba í borgarastríði að glæp.

Lögmaður Mladics, Dragan Ivetic, sagði við blaðamenn að hann teldi að dómstóllinn hefði ekki tekið nægjanlegt tillit til heilsufars skjólstæðings síns. Ekki hafi verið hlustað á varnaðarorð um að Mladic ætti við lífshættuleg veikindi að stríða. Málinu yrði áfrýjað.

„Hvað sem ykkur kann að finnast um Ratko Mladic þá er hann manneskja og á rétt á því að komið sé fram við hann sem slíkan,“ sagði Ivetic. Darko Mladic bætti við: „Faðir minn er ekki skrímslið sem þið viljið draga upp af honum í sögunni. Sagan, eins og við þekkjum hana, er rituð af sigurvegurunum.“

„Serbar munu aldrei líta á þennan dómstól sem hlutlausan,“ sagði annar lögmaður Mladics, Branko Lukic.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert