Argentínski sjóherinn greindi frá því í dag að hann rannsaki nú hljóð sem heyrðist í Atlantshafinu undan ströndum Argentínu nokkrum klukkustundum eftir síðustu samskipti við kafbátinn San Juan.
Ekkert hefur spurst til bátsins og 44 manna áhafnar síðan á miðvikudaginn fyrir viku en samkvæmt talsmanni hersins mun súrefnið brátt þverra.
Enrique Balbi, talsmaður hersins, sagði að hljóðið hefði heyrst um þremur klukkustundum eftir síðustu samskiptin við menn um borð í bátnum. Hljóðið hefði heyrst um 48 kílómetrum fyrir norðan síðustu staðsetningu bátsins sem vitað er um.
Aðspurður svaraði Balbi því neitandi að hljóðið hefði getað verið sprenging.
„Staðan er slæm og hún fer versnandi eftir því sem tíminn líður,“ sagði Balbi. San Juan var leið frá herstöð á Tierra del Fuego-eyjaklasanum suður af Argentínu til heimahafnar í borginni Mar del Plata í norðausturhluta landsins. Stjórnstöð hersins missti hins vegar samband við hann 15. nóvember.
Í síðustu samskiptum skipstjórans og stjórnstöðvar hersins kom fram að vélarbilun hefði orðið.