Súrefnið senn á þrotum

Malvina Vallejos, systir skipverjans Celso Oscar Vallejos hengir upp veggspjald …
Malvina Vallejos, systir skipverjans Celso Oscar Vallejos hengir upp veggspjald með myndum af áhöfn kafbátsins San Juan sem hefur verið saknað í viku. AFP

Leitin að argentínska kafbátnum San Juan hefur enn engan árangur borið að sögn hers landsins. Ekki hefur náðst samband við hina 44 manna áhöfn í viku. Súrefnið um borð mun brátt þverra að sögn talsmanns hersins.

Bátsins er leitað í Atlantshafinu undan ströndum Argentínu en er flókin af þeirri einföldu ástæðu að kafbátar eiga að geta farið óséðir um og ekki finnast.

San Juan var leið frá herstöð á Tierra del Fuego eyjaklasanum suður af Argentínu til heimahafnar í borginni Mar del Plata í norðausturhluta landsins. Stjórnstöð hersins missti hins vegar samband við hann þann 15. nóvember.

Skip og flugvélar frá að minnsta kosti sjö löndum og um 4.000 manns taka þátt í leitinni í Suður-Atlantshafi. Nú er tíminn að hlaupa frá leitarmönnum í ljósi þess að ekki er talið að báturinn hafi komist upp á yfirborðið frá því að sambandið við hann rofnaði.

San Juan í höfn við Buenos Aires árið 2014. Um …
San Juan í höfn við Buenos Aires árið 2014. Um borð eru 44 skipverjar. AFP

Jafnvel þó að kafbáturinn sé heill, þ.e. að ekki hafi komist leki að honum, er súrefni um borð að öllum líkindum senn á þrotum.

Í síðustu samskiptum skipstjórans og stjórnstöðvar hersins kom fram að vélarbilun hefði orðið. Þá var báturinn í San Jorge-flóa, um miðja vegu frá þeirri höfn sem hann lagði upp frá og til áfangastaðarins. Fram kom að áhöfnin væri þá heil á húfi og var litið svo á að vélarbilunin væri ekki stórvægileg. Einu sinni til viðbótar náðist samband við skipstjórann en argentínski herinn hefur ekki upplýst í hverju þau samskipti fólust. Samkvæmt áætlun hefði San Juan átt að koma til heimahafnar á sunnudag. En það gerði hann ekki.

Knúinn dísilolíu

Alls er óvíst hvort að báturinn hafi náð að sigla áfram eða hvort að vélarbilunin hafi orðið til þess að hann sökk til botns. Báturinn er knúinn dísilolíu en ekki kjarnorku og getur því siglt takmarkaðar vegalengdir. Þó að hann sé þeirrar gerðar að hann gæti verið á sjó í heilan mánuð er þó ekki þar með sagt að hann geti verið neðansjávar allan þann tíma, að sögn sérfræðings sem CNN ræðir við.

Báturinn þarf að koma reglulega upp á yfirborðið til að „fnæsa“, þ.e. að endurnýja súrefnisbirgðir sínar. Það þarf hann einnig að gera til að komast í gott samband við umheiminn. Slíkt er yfirleitt gert einu sinni á hverjum sólarhring, að sögn sérfræðings CNN.

En engin merki hafa borist frá San Juan frá því fyrir viku. Hafi hann sokkið til botns og sé þar í heilu lagi endast súrefnisbirgðirnar í mesta lagi viku til tíu daga. Um borð á þó að vera neyðarsendir sem hægt er að senda upp á yfirborðið. Það virðist hins vegar ekki hafa verið gert.

Getur verið á um 5-600 metra dýpi

San Juan er kominn nokkuð til ára sinna. Hann var smíðaður í Þýskalandi á níunda áratug síðustu aldar en var gerður upp fyrir fimm árum. Hann getur staðist vatnsþrýsting á allt að 5-600 metra dýpi, hafi hann ekki orðið fyrir skemmdum. Dýpi sjávar á þeim slóðum sem báturinn var síðast þegar samband náðist við hann er minna en þetta en hafi honum verið siglt lengra út á Atlantshafið er það mun meira.

Að finna kafbát er eðli málsins samkvæmt erfiðara en að finna hefðbundin skip. Þeir eiga að geta dulist og að geta komist um án ummerkja. Það er helst vélarhljóðið sem hægt er að renna á en hafi vélarnar stöðvast er því ekki að heilsa í þessu tilviki.

„Ef hann liggur á hafsbotni eru líklega fá hljóð sem berast frá honum,“ segir Peter Layton, segir sérfræðingur CNN. „Áhöfnin gæti barið í skipsskrokkinn og þannig vonast til að skip í nágrenninu heyri í henni.“

Skip argentínska hersins, Sarandi, á leið til leitar. Á bakkanum …
Skip argentínska hersins, Sarandi, á leið til leitar. Á bakkanum standa ástvinir þeirra sem eru um borð í San Juan. AFP

Skip búin næmum búnaði til að nema slík hljóð taka nú þátt í leitinni, m.a. tvö skip frá Bandaríkjaher. Önnur eru útbúin tækjum til að kortleggja hafsbotninn og reyna með þeim hætti að koma auga á bátinn. Þá eru einnig ómannaðir kafbátar, búnir myndavélum, notaðir við leitina. 

Sé báturinn vélarvana á hafsbotni eru leiðir færar til að bjarga áhöfninni frá borði. Hvaða leiðum yrði beitt fer þó eftir því á hversu mikli dýpi báturinn væri. Hægt væri að sökkva nokkurs konar björgunarklefa frá skipi sem festur yrði rækilega við op kafbátsins. Með þeim hætti væri hægt að bjarga allt að sex manns í einu. Þá eru einnig aðrir kafbátar færir til að læsa sig við bátinn og bjarga þannig allt að 16 manns í einu.

Skilyrði til leitar hafa verið erfið síðustu daga. Í dag er vonast til þess að veðrið batni og þá verður settur aukinn þungi í leitaraðgerðir. Á morgun, fimmtudag, er svo búist við því að veðrið versni á ný og því er tíminn mjög naumur.

Á meðan öllu þessu stendur bíða ástvinir áhafnarinnar fregna í Mar del Plata. „Við erum að bíða eftir góðum fréttum svo að við höfum eitthvað til að gleðjast yfir,“ segir Marcela Tagliapetra, ættingi eins skipverjans í samtali við ABC-sjónvarpsstöðina. „Ég er sannfærð um að þær komi. Ég er viss um það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert