Leigubílaþjónustan Uber leyndi því í ár að tölvuþrjótar hefði komist yfir persónuupplýsingar um 57 milljóna viðskipta vina fyrirtækisins. Bloomberg-fréttaveitan greindi frá þessu í gær og sagði Travis Kalanick, fyrrverandi framkvæmdastjóra fyrirtækisins hafa vitað af gagnastuldinum, sem átti sér stað 2016. Kalanic var nýlega látinn fara frá fyrirtækinu.
Segir BBC Uber hafa greitt tölvuþrjótunum 100.000 dollara, eða andvirði um 10 milljóna króna fyrir að eyða upplýsingunum.
Tölvuþrjótarnir komust yfir nöfn, netföng og gsm númer 57 milljón viðskiptavina Uber, sem og nöfn og leyfisveitingar 600.000 ökumanna Uber.
Dara Khosrowshahi, sem var ráðinn framkvæmdastjóri Uber er Kalanick var látinn taka pokann sinn, segir þetta aldrei hafa átt að gerast og að hann ætli sé ekki að reyna að afsaka það á neinn hátt. Hann segir fyrirtækið hafa fylgst vel með málum í kjölfarið og að ekki hafi orðið vart við að gögninn hafi verið notuð á neinn hátt.
Í kjölfar frétta af gagnastuldinum var Joe Sullivan, öryggismálastjóri Uber, látinn fara.