Sérútbúin flugvél bandaríska sjóhersins, sem tekur þátt í leitinni að argentínska kafbátnum San Juan, hefur greint hlut í sjónum í námunda þess staðar sem báturinn var á er síðast náðist samband við hann. Nú hefur verið staðfest að hluturinn tengist ekki kafbátnum.
Nokkrar fréttastofur greindu frá því í dag að áhöfn vélarinnar hefði komið auga á hlutinn, m.a. Sky og Reuters. Þá sagði áhöfnin að of snemmt væri að segja til um uppruna hlutarins.
Vélinni var í kjölfarið snúið aftur til lands.
Skömmu síðar sagði talsmaður bandaríska sendiráðsins í Argentínu að hluturinn væri ekki talinn tengjast kafbátnum San Juan.
Síðast náðist samband við kafbátinn fyrir viku. 44 eru í áhöfn hans. Leitin er umfangsmikil og flókin þar sem kafbátum sem notaðir eru í hernaði er eðli málsins samkvæmt ekki ætlað að finnast með einföldum hætti.
Fyrr í morgun var greint frá því að hátt hljóð hefði verið greint í sjónum á svæðinu skömmu eftir að síðast náðist samband við bátinn.
Fréttin hefur verið uppfærð.