Argentínski sjóherinn rannsakar nú uppruna háværs hljóðs sem var greint nokkrum klukkustundum eftir að kafbáturinn San Juan hvarf fyrir rúmri viku undan ströndum landsins. 44 eru í áhöfn bátsins. Leit að honum hefur enn engan árangur borið.
Talsmaður hersins vill ekki staðfesta hvort grunur sé um að hljóðið hafi orðið til við sprengingu um borð í kafbátnum.
Óttast er að hafi áhöfnin lifað eftir að báturinn hvarf fyrir viku sé súrefni hennar á þrotum. „Mér finnst ég vera að bíða eftir líki,“ segir systir eins skipverjans í samtali við BBC en ástvinir halda til í heimahöfn bátsins í Mar del Plata og bíða fregna. „Mér finnst ég vera á líkvöku,“ segir konan.
Tólf ríki aðstoða við leitina m.a. Rússland, Brasilía, Frakkland, Bretland og Bandaríkin. Leitað er úr lofti og á sjó en einnig hafa tveir ómannaðir kafbátar verið notaðir við leitina.
Í gær var vika síðan að síðast heyrðist frá áhöfn bátsins. Þá var tilkynnt um vélarbilun.
Kafbáturinn San Juan er dísilknúinn og var að koma úr hefðbundinni eftirlitsferð til Ushuaia í nágrenni syðsta odda Suður-Ameríku. Á miðri leið til heimahafnarinnar tilkynnti skipstjórinn bilun í rafkerfi. Þá var báturinn ofansjávar. Stjórnstöð bað skipstjórann að flýta ferð sinni til heimahafnar. Skipstjórinn átti einu sinni enn samskipti við stjórnstöð og í því samtali sagði hann að tekist hefði að laga bilunina.
Samkvæmt reglum argentínska hersins eiga kafbátar að láta vita af sér tvisvar sinnum á sólarhring. Þegar áhöfn San Juan gerði það ekki hóf herinn leit að bátnum.