„Ég trúi þér“ skrifar fjöldi Spánverja nú á samfélagsmiðla til stuðnings fórnarlambi hópnauðgunar sem átti sér stað í borginni Pamplona þegar nautahlaupið víðfræga fór þar fram í fyrra. Málið hefur vakið mikinn óhug í landinu og kemur upp á þeim tíma þegar flóðalda ásakana um kynferðislega áreitni og ofbeldi skekur heimsbyggðina.
Réttað er nú yfir fimm mönnum vegna nauðgunarinnar. Þeir eru á aldrinum 27-29 ára. Þeir eru sakaðir um að hafa nauðgað átján ára konu í anddyri fjölbýlishúss í Pamplona hinn 7. júlí á síðasta ári á fyrsta degi San Fermin-hátíðarinnar sem dregur þúsundir ferðamanna til borgarinnar ár hvert.
Mennirnir eru frá borginni Seville á Spáni. Þeir tóku nauðgunina upp á myndband og eru sagðir hafa stært sig af athæfinu á spjallforritinu WhatsApp. Þar kölluðu þeir sig La Manada, eða Hópinn.
Saksóknarar fara fram á að mennirnir fimm verði dæmdir í 22 ára fangelsi. Þeir segja hins vegar að stúlkan hafi samþykkt samræðið en hafa játað að hafa stolið símanum hennar.
Dómarinn hefur leyft að fyrir dóminn verði lagðar upplýsingar um einkalíf fórnarlambsins sem einkaspæjarar söfnuðu. Meðal gagnanna eru upplýsingar um að stúlkan hafi farið í veislu fáum dögum eftir nauðgunina. Þessi ákvörðun dómarans hefur vakið mikla reiði meðal almennings.
Setningin „ég trúi þér“ er nú skrifuð í gríð og erg á samfélagsmiðla á Spáni sem og á götum úti. Þá halda mótmælendur, sem safnast hafa saman víðs vegar um landið á skiltum þar sem þetta er skrifað.
Spænski rithöfundurinn Almudena Grandes sagði í útvarpsviðtali að verið væri að reyna að koma inn efa hjá fólki um siðferði fórnarlambsins því að hún hefði „dirfst að fara út og fá sér drykk með vinum sínum eftir að hafa verið nauðgað í stað þess að vera heima hjá sér með dregið fyrir“.
Carlos Bacaicoa, lögmaður stúlkunnar segir hana hafa rétt til þess að reyna að byggja upp líf sitt að nýju og láta eins og ekkert hafi í skorist ef henni sýnist svo.
Hundruð mótmælenda söfnuðust saman fyrir utan dómshúsið í Pamplona er réttarhöldin hófust.
Laura Nuno Gomez, lögmaður sem rekur rannsóknarmiðstöð um jafnrétti kynjanna í Madrid við Juan Carlos-háskólann segir að málið valdi svo mikill úlfúð því á Spáni sé uppsöfnuð reiði vegna bakslags í réttindum kvenna í landinu að undanförnu.
Gomez tekur sem dæmi mál konu frá Andalúsíu sem var dæmd til að senda börnin sín tvö til föður þeirra á Ítalíu en hún hafði ítrekað sakað manninn um ofbeldi.
Konur sem verða fyrir kynferðislegu ofbeldi á Spáni mæta reglulega fordómum yfirvalda sem efast um vitnisburði þeirra, segir í yfirlýsingu frá Amnesty International.
„Það er mjög erfitt að vera fórnarlamb nauðgunar og þurfa að ganga í gegnum allt sem því fylgir þó að ekki bætist við dómur alls samfélagsins,“ segir félagsfræðingurinn Maria Silvestre í samtali við AFP-fréttastofuna.
Hópnauðgunin í Pamplona hefur orðið til þess að fleiri konur hafa stigið fram og sagt frá nauðgunum sem þær hafa orðið fyrir. Í grein sem birt var í dagblaðinu El Diario sagði t.d. blaðamaðurinn Ruth Toledano frá nauðgun sem hún varð fyrir fyrir 20 árum. „Ég segi frá minni persónulegu reynslu til að sýna að enginn getur stjórnað því hvernig frjáls kona á að haga sér eða lífa sínu lífi, hvorki fyrir né eftir nauðgun.“