25 ár fyrir árásir á fjölmiðlafólk

Teikning af Abdelhakim Dekhar í dómsalnum.
Teikning af Abdelhakim Dekhar í dómsalnum. AFP

Franskur dómstóll dæmdi í dag Abdelhakim Dekhar í 25 ára fangelsi fyrir tvær byssuárásir sem hann stóð á bak við í París, höfuðborg Frakklands, árið 2013. Hafði hann í hótunum við forsvarsmenn sjónvarpsstöðvar og skaut meðal annars af haglabyssu á skrifstofu stöðvarinnar. Síðar fór hann inn á skrifstofur dagblaðs þar sem hann hóf skothríð og særði ljósmyndara lífshættulega. Hann hóf einnig skot­hríð fyr­ir utan skrif­stof­ur banka í borg­inni. 

Dekhar, sem nú er 52 ára, var handtekinn eftir mikla leit lögreglunnar, en hann var í felum í þrjá daga. Dómurinn fann hann sekan um morðtilraunir gegn forsvarsmanni sjónvarpsstöðvarinnar og ljósmyndaranum.

Árásirnar áttu sér stað áður en alda hryðjuverkaárása skók Frakkland í kjölfar árásanna á skrifstofur tímaritsins Charlie Hebdo í janúar 2015.

Dekhar minntist ítrekað við réttarhöldin á nýlendutíma Frakka yfir Algeríu og samfélagsleg vandamál í úthverfum franskra borga. Þá sagðist hann hafa verið haldinn sjálfsmorðshugsunum og viljað að lögreglan myndi drepa hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert