Nú eru tíu dagar liðnir frá því að síðast náðist samband við argentínska kafbátinn San Juan. Vonarneistinn er slokknaður og ástvinir áhafnarinnar eru farnir að syrgja. 44 voru um borð í bátnum. Athöfn var haldin í dag til að minnast þeirra sem taldir eru af þó að argentínski herinn hafi ekki enn gefið út að þeir séu látnir.
Athöfnin fór fram fyrir utan herstöðina í Mar del Plata þar sem heimahöfn bátsins er og þangað sem hann var væntanlegur. „Það er bæði von og vonleysi,“ segir talsmaður hersins. „Við þurfum að fá sönnunargögn. Við erum enn að leita að kafbátnum.“
En margir ástvinir eru fullir vonleysis. Neistinn slokknaði eftir að herinn staðfesti á fimmtudag að hljóð sem líklega væri frá sprengingu hefði heyrst á svæðinu þar sem samband náðist síðast við kafbátinn á miðvikudag í síðustu viku. Sérfræðingar segja að líklega hafi rafgeymar bátsins sprungið.
Engar sprengjur voru um borð í bátnum að sögn talsmanns hersins en sögusagnir höfðu verið á kreiki um slíkt. Hann sagði ennfremur að leitað yrði myrkranna á milli áfram.
Nokkrir ættingjar halda þó enn í vonina að einhver sé lifandi um borð í hinum 34 ára gamla kafbát.
Skilyrði til leitar voru góð í dag en undanfarna daga hefur verið vindasamt á svæðinu sem hefur takmarkað möguleika til leitarinnar. Talið er að veðrið muni aftur versna á morgun.
Stór rússnesk flutningavél kom til Argentínu með kafbát sem er sérútbúinn til leitar á hafsbotni allt niður á 1.000 metra. Þá vinna hermenn allan sólarhringinn við það að breyta norsku skipi sem olíufyrirtækið Total á svo það geti flutt björgunarhylki sem bandaríski herinn sendi á vettvang. Í hylkið komast allt að sextán manns.
Þar sem ekki er vitað hvar kafbátinn er að finna getur hann verið á um 200 til allt að 3.000 metra dýpi að sögn sérfræðinga. Þeir segja að hafi báturinn sokkið niður á meira en 600 metra dýpi hafi hann kramist undan vatnsþrýstingnum.
Herinn hefur upplýst að einn skipverji sem átti að vera um borð hafi hætt við á síðustu stundu. Fréttaveitur í Brasilíu segja að tveir skipverjar hafi lent í þeim sporum. Í þeirra stað fóru því aðrir menn í ferðina örlagaríku.
Herinn neitar að gefa upp nafn mannsins en fréttamiðlar segja hann heita Humberto Vilte. Vinkona hans segir í viðtali við La Nacion að hann sé vel á sig kominn líkamlega en miður sín yfir örlögum félaga sinna.
Forseti Argentínu hefur fyrirskipað rannsókn á slysinu. Hann segir nauðsynlegt að komast að því hvað gerðist. Kafbáturinn var sagður í fullkomnu ásigkomulagi. Hann hafði verið gerður upp fyrir fimm árum.