Frændi Roberts Mugabe, fyrrverandi forseta Simbabve, segir að frændi sinn sé við góða heilsu og „nokkuð kátur“ eftir að hafa loks látið undan þrýstingi og sagt af sér í vikunni. Mugabe hélt um stjórnartaumana í landinu í 37 ár. Hann ætlaði sér að sitja lengur á forsetastóli en herinn greip þá til sinna ráða.
„Honum líður vel. Ég hef hitt hann og hann er nokkuð kátur,“ segir Leo Mugabe, systursonur forsetans fyrirverandi. „Hann hlakkar í rauninni til þessa nýja kafla í lífinu sínu, að stunda búskap og eyða tíma á heimili sínu á landsbyggðinni. Hann hefur tekið þessu öllu vel.“
Leo Mugabe vildi ekki tjá sig um hvort rétt væri að Mugabe hafi fengið 10 milljóna dollara, um 1 milljarð króna, í starfslokasamning. Hann sagði hins vegar frá því að eiginkona Mugabes, Grace, hafi í hyggju að reisa háskóla í hans nafni. „Hún er nú alltaf hjá honum. Hún er ótrúleg manneskja.“
Bygging háskólans, sem samþykkt var af ríkisstjórn landsins í ágúst, hefur verið harðlega gagnrýnd því efnahagur landsins er rjúkandi rúst eftir valdatíma Mugabes.