Um 100 þúsund manns hefur verið gert að yfirgefa hættusvæði umhverfis eldfjallið Agung á indónesísku eyjunni Balí. Gosmökkurinn úr fjallinu hefur magnast og óttast er að stórt eldgos sé yfirvofandi. Flugvellir á eyjunni eru nú lokaðir um þúsundir ferðamanna komast ekki frá eyjunni. Viðbúnaður í landinu er nú á hæsta stigi.
Um 40 þúsund manns hafa þegar yfirgefið nágrenni fjallsins en yfirvöld segja að mun fleiri þurfi nú að fara.
Þykkur, grár gosmökkur hefur staðið upp úr fjallinu frá því í gærmorgun og náð í um 4.000 metra hæð. Fjallið rumskaði fyrir nokkrum vikum. Það gaus síðast árið 1963. Þá létust um 1.600 manns.
Gosaskan hefur fallið í nágranni fjallsins og þykkur leir rennur um ár og læki frá fjallinu. Sérstaklega hefur verið varað við hættunni af þessum nú leirkenndu lækjum.
Miklar drunur hafa heyrst frá fjallinu í allt að tólf kílómetra fjarlægð. Þá sjást eldglæringar og blossar sem yfirvöld segja að séu til marks um það að stórt eldgos sé í uppsiglingu.
Jarðfræðingurinn Mark Tingay segir í samtali við BBC að svo virðist sem Agung sé komið á næsta stig, þ.e. nú gæti glóandi hraun brátt farið að flæða upp á yfirborðið. Hann segir hins vegar að mjög erfitt sé að spá fyrir um hvenær það gerist og hversu öflugt gosið verði. Þá er engan veginn hægt að áætla hversu lengi gosið myndi standa yfir.
Ferðamenn sem staddir eru á eyjunni vinsælu eru beðnir að fylgjast mjög vel með viðvörunum yfirvalda og þeim sem þangað ætluðu að fara er ráðlagt frá því.