Bjarmi frá hrauni á tindi eldfjallsins

Bjarmi frá glóandi hrauninu sést á tindi Agung.
Bjarmi frá glóandi hrauninu sést á tindi Agung. AFP

Neyðarskýli og hótel á indónesísku eyjunni Balí eru full af fólki sem ýmist hefur verið gert að rýma svæði umhverfis eldfjallið Agung eða kemst ekki frá eyjunni til síns heima. Annan daginn í röð er alþjóðaflugvöllurinn á eyjunni lokaður vegna gossins. Hraun er nú sagt sjást efst í fjallinu og er óttast að stórt gos sé í vændum. „Við sáum hraunið í nótt,“ sagði Nyoman Karyiarsa, sem býr skammt frá eldfjallinu, í samtali við Guardian.

Ferðamenn sem í þúsundavís eru strandaglópar á eyjunni leita hótelherbergja í ofboði og logandi hræddir þorpsbúar sem búa í nágrenni fjallsins hafa þyrpst í neyðarskýlin eða reynt að komast með bátum frá eyjunni. Um 200 slíkum skýlum hefur verið komið upp.

Þykkur gosmökkurinn rís í um þriggja kílómetra hæð og sjónarvottar segja að glóandi hraun sjáist nú í fjallinu. 

Sjómaður fer til róðra með eldfjallið Agung í baksýn.
Sjómaður fer til róðra með eldfjallið Agung í baksýn. AFP

Agung gaus síðast árið 1963. Í því gosi létu um 1.600 manns lífið. Fjallið fór að rumska aftur fyrir nokkrum vikum og nú er hæsta viðbúnaðarstig á eyjunni. Gosaskan hefur blandast ám og lækjum sem renna niður hlíðar fjallsins svo úr hefur orðið þykkur leirstraumur.

Yfirvöld ferja fólk að ferjum sem flytja það á næstu eyju þar sem flugvöllurinn er enn opinn. 

Talið er að um 40 þúsund manns af þeim 100 þúsund sem gert hefur verið að yfirgefa hættusvæði í nágrenni fjallsins hafi farið að fyrirmælum yfirvalda. 

„Gosaskan þyrlast upp. Hún er þykk og rís hátt í loft upp í um 3-4 kílómetra hæð frá gíg eldfjallsins,“ segir talsmaður eldfjallamiðstöðvar Indónesíu.

Hættusvæðið er langt frá helstu ferðamannastöðum eyjunnar. 

443 flugferðum hefur verið frestað eða aflýst frá eyjunni síðustu tvo daga og hefur það haft áhrif á ferðalög um 120 þúsund ferðamenn sem staddir eru á eyjunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert