Björgunarleit að argentínska kafbátinum ARA San Juan, sem ekkert hefur til spurst frá því um miðjan síðasta mánuð, hefur verið hætt. Argentínski sjóherinn tilkynnti í gær að ekki væri lengur um björgunaraðgerð að ræða. 44 voru í áhöfn kafbátsins, sem umfangsmikil leit sem 13 þjóðir hafa tekið þátt í, hefur staðið yfir að undanfarnar tvær vikur.
„Þrátt fyrir umfang leitaraðgerðanna þá hefur ekki tekist að staðsetja kafbátinn,“ hefur BBC eftir Enrique Balbi, talsmanni sjóhersins. Ástvinir áhafnarinnar eru flestir búnir að missa vonina um að einhver sé á lífi um borð
Síðustu samskipti sjóhersins við kafbátinn áttu sér stað 15. nóvember. Vonir um að það tækist að finna áhöfn kafbátsins á lífi dofnuðu eftir að greint var frá því fyrr í vikunni að sprenging hafi herst í nágrenni við þann stað þar sem síðast fréttist af kafbátinum. Argentínski sjóherinn hefur staðfest að hljóðið gæti hafa stafað af sprengingu í bátnum.
Balbi sagði kafbátsins nú hafa verið leitað nær helmingi lengur en þann daga fjölda sem talið hefði verið mögulegt að finna áhöfn hans á lífi, en áður hefur verið greint frá því að áhöfnin ætti að geta haft nægt súrefni til að vera í kafi í viku.
Ekki væri þó enn hægt að úrskurða neitt um örlög áhafnarinnar, enda hafi engin merki um skipsflak fundist á svæðinu þar sem leitað hefur verið. Leitaraðgerðum hafi þó verið breytt og nú sé svipast um eftir flaki á hafsbotninum þar sem að talið er að kafbáturinn hafi horfið.
Talið er að sjór hafi komist inn í bátinn í gegnum lofttúðu á skrokk hans. Sjórinn hafi svo komist í einn af rafgeymum bátsins og orsakað skammhlaup.