Kristilegir demókratar og SPD ræða saman á ný

Angela Merkel kanslari Þýskalands og Martin Schulz leiðtogi SPD eiga …
Angela Merkel kanslari Þýskalands og Martin Schulz leiðtogi SPD eiga nú í könnunarviðræðum um mögulegt stjórnarsamstarf. AFP

Kristilegir demókratar, flokkur Angelu Merkel kanslara Þýskalands, og Sósíaldemókrataflokkurinn (SPD) hafa fallist á að hefja könnunarviðræður um mögulega stjórnarmyndun.

Formenn flokkanna funduðu í gær með Frank-Walter Steinmeier, forseta Þýskalands, að því er dagblaðið Bild greinir frá, en flokkarnir sátu saman í stjórn á síðasta kjörtímabili og hafði SPD gefið út að svo yrði ekki aftur.

Segir Bild Merkel, Martin Schulz og Horst Seehofer sem er leiðtogi Kristilegra demókrata í Bæjaralandi, nú ræða mismunandi leiðir til að mynda ríkisstjórn, en ekki hefur enn tekist að mynda stjórn í Þýskalandi eftir að þingkosningar fóru fram í landinu var í lok september.

Meðal þeirra hugmynda sem Bild segir vera uppi eru myndun stórrar samsteypustjórnar, yfir í það að minnihlutastjórn undir stjórn Merkel verði við völd, eða að kosið verði á ný.

Illa hefur gengið að mynda stjórn í Þýskalandi eftir að Kristilegir demókratar héldu þingmeirihlutanum þrátt fyrir að missa mikið fylgi í kosningunum og hafa tilraunir til að mynda stjórn með Frjálslyndum demókrötum (FDP) og Græningjaflokkinum ekki skilað árangri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert