Mnangagwa gagnrýndur fyrir vinahylli

Emmerson Mnangagwa forseti Simbabve hefur verið gagnrýndur fyrir að velja …
Emmerson Mnangagwa forseti Simbabve hefur verið gagnrýndur fyrir að velja með sér í stjórn þá sem komu honum til valda. AFP

Emmerson Mnangagwa, sem tók við embætti forseta Simbabve í síðustu viku, hefur nú skipað nýja stjórn í landinu. Nýja ríkisstjórnin er að sögn BBC að mestu skipuð ráðherrum sem fyrir voru í stjórn fyrrverandi forsetans Robert Mugabes, sem sagði af sér í kjölfar mótmæla og valdatöku hersins, og hátt settum einstaklingum í hernum.

Þannig hefur herforinginn Sibusiso Moyo, sem tilkynnti íbúum landsins um yfirtökuna í ríkissjónvarpi Simbabve, nú verið skipaður utanríkisráðherra. Yfirmaður flughers landsins Perence Shiri, er nýr landbúnaðarráðherra Simbabve.

Þegar Mnangagwa tók við völdum með aðstoð hersins í síðustu viku lofaði hann nýjum tíma. Ráðherraval hans hefur því þegar vakið gagnrýni hjá mörgum.

Tendai Biti einn af gagnrýnendum stjórnarinnar segir það hafa verið rangt hjá Simbabvebúum að vonast eftir breytingum. „Þangað til núna höfum við leyft valdaráninu að njóta vafans. Við gerðum það í þeirri einlægu en ef til vill barnalegu von um framfarir í landinu. Við þráðum breytingar, frið og stöðugleika í landi okkar. Hversu rangt höfðum við ekki fyrir okkur,“ sagði Biti.

Dagblaðseigandinn Trevor Ncube sagði ráðherraskipanina „veruleg vonbrigði“.  „Þetta er að stærstum hlut sama fólk og olli vandanum. Hveitibrauðsdögunum er lokið og veruleikinn blasir nú við,“ sagði Ncube. Mnangagwa hafi virst vera mest í mun að launa þeim sem komu honum til valda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert