Tveir menn verða leiddir fyrir dómara í Westminster í dag en þeir voru handteknir í síðustu viku sakaðir um að undirbúa samsæri um að myrða forsætisráðherra Bretlands, Theresu May.
Naa'imur Zakariyah Rahman, 20 ára frá Norður-London og Mohammed Aqib Imran, 21 árs frá Birmingham, hafa verið ákærðir fyrir brot á hryðjuverkalögum, samkvæmt frétt BBC. Heimildir BBC herma að þeir séu meðal annars sakaðir um að hafa ætlað að sprengja öryggishlið í Downing-stræti, embættisbústað forsætisráðherra, og ráðast síðan á May með hnífum. Mennirnir voru handteknir á grundvelli hryðjuverkalaga 28. nóvember.
Í gær greindi forstjóri bresku leyniþjónustunnar, MI5, Andrew Parker May og öðrum í ríkisstjórn Bretlands, frá því að mögulega hefði verið hægt að koma í veg fyrir sprengjutilræðið á Manchester Arena. Komið hafi verið í veg fyrir níu hryðjuverkaárásir íslamista í Bretlandi frá því í mars á þessu ári.