Einn látinn eftir átök á Gaza

Palestínskir mótmælendur bera á milli sín einn mótmælanda sem særðist …
Palestínskir mótmælendur bera á milli sín einn mótmælanda sem særðist í átökunum sem kom til á Gaza eftir ákvörðun Trump. AFP

Ísraelsher skaut Palestínumann til bana í dag, en að sögn heilbrigðisráðuneytis Palestínu er maðurinn sá fyrsti sem drepinn hefur verið í átökum sem komið hefur til eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti viðurkenndi Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels.

Segir heilbrigðisráðuneytið hinn látna vera Mahmoud al-Masri, 30 ára, sem hafi verið drepinn í átökum sem kom til í Khan Younis, við landamæri Ísraels á suðurhluta Gaza. Annar maður er þá í lífshættu vegna meiðsla sem hann hlaut í átökunum.

AFP-fréttastofan segir Ísraelsher hafa staðfest að herinn hafi skotið á tvo einstaklinga við landamærin, sem hafi verið „aðalhvatamenn“ að „ofbeldisfullum óeirðum“.

Ákvörðun Trump, sem einnig tilkynnti um flutning á sendiráði Bandaríkjanna til Jerúsalem, hefur vakið mikla reiði í Palestínu og í fjölda múslimaríkja. Hvatti leiðtogi Hamas-samtakanna m.a. til uppreisnar (intifada).

Fréttir hafa borist af átökum víða við landamæri Gaza, sem og á Vesturbakkanum og í Jerúsalem. Eru rúmlega 250 Palestínumenn sagðir hafa særst í átökunum, aðallega af völdum táragass.

Að sögn Ísraelshers kom til óeirða á um 30 stöðum á Vesturbakkanum og Gazasvæðinu. Um 3.000 Palestínumenn eru sagðir hafa tekið þátt í átökunum á Vesturbakkanum og nokkur hundruð í átökunum á Gaza.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur boðað til neyðarfundar í dag til að ræða ákvörðun Trump, sem hefur verið fordæmd af ráðamönnum ríkja víða um heim, sem og af Antonio Guterres, aðalritara Sameinuðu þjóðanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert