Þingmenn í Argentínu eru sagðir vera að rannsaka tvö þýsk fyrirtæki vegna skipta á rafgeymum í kafbátnum San Juan sem hvarf undan ströndum landsins um miðjan nóvember. Hefur því verið haldið fram að mútur hafi verið greiddar í samningum og rafgeymar af lélegum gæðum verið notaðir.
Þetta kemur fram í frétt Telegraph. Utanríkisnefnd argentínska þingsins hefur sent þýska innanríkisráðneytinu fyrirspurnir vegna málsins, að því er fjölmiðlar í Argentínu segja.
„Grunsemdir hafa vaknað um að rafgeymar sem skipt var út hafi ekki verið, allir eða að hluta, af þeim gæðum sem þeir áttu að vera. Við vitum ekki hvaðan þeir komu, hvort þeir eru frá Þýskalandi eða öðru landi. Vegna þessa viljum við vita hvaða tæknimenn voru þarna og hver skrifaði undir og sagði: „Gott, þetta er viðgert“,“ er haft eftir Cornelia Schmidt-Liermann, formanni utanríkisnefndarinnar, í argentínsku útvarpi.
Hún segir að grunur sé uppi um að mútur hafi verið greiddar til að tryggja samninga vegna endurbóta á bátnum og að þýsk fyrirtæki hafi þar átt hlut að máli.
Nefndin hefur beðið um upplýsingar frá tveimur þýskum fyrirtækjum sem höfðu m.a. gert samninga um að endurnýja rafgeyma kafbátsins.
Ekkert hefur spurst til kafbátsins San Juan frá því að samband rofnaði við hann þann 15. nóvember. Um borð voru 44 og er talið að sprenging hafi orðið, líklegast í rafgeymum, með þeim afleiðingum að hann sökk til botns.