Utanríkisráðherrar 22 Arabaríkja hafa sent frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem þess er krafist að Bandaríkin afturkalli viðurkenningu sína á Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels. Í yfirlýsingunni er alþjóðasamfélagið einnig hvatt til að viðurkenna Palestínu sem sjálfstætt ríki.
Í frétt BBC kemur fram að yfirvöld í Arabaríkjunum telji að ákvörðun Trumps auki hættu á ofbeldi og glundroða í Mið-Austurlöndum. Þá sé ekki lengur hægt að treysta á Bandaríkin sem málamiðlara í deilunni á svæðinu.
Frá því að Trump lýsti yfir ákvörðun sinni á miðvikudag hafa átök bortist út á Gaza og Vesturbakkanum. Eldflaugum hefur verið skotið og loftárásir voru gerðar á Gaza í gær. Fjórir Palestínumenn hafa fallið í átökunum og tugir hafa særst.
Frétt mbl.is: Fjórir Palestínumenn féllu
Arababandalagið fundaði í Kaíró, höfuðborg Egyptalands, í gær. Á fundinum var meðal annars samþykkt að leita til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna í þeim tilgangi að fordæma ákvörðunina og tilkynna hana sem brot á alþjóðalögum.
Meðal ríkja sem skrifa undir yfirlýsinguna eru ríki sem hafa verið hliðholl Bandaríkjunum, líkt og Sameinuðu arabísku furstadæmin, Sádi-Arabía og Jórdanía.
Einn af fáum þjóðhöfðingjum sem hafa lýst yfir ánægju sinni með ákvörðun Trumps er forseti Tékklands, Milos Zeman. Hann sakaði Evrópusambandið í gær um heigulshátt vegna viðbragða sambandsins við ákvörðun Trumps.
Frétt mbl.is: Sakar ESB um heigulshátt