Börn sem eru ein á flótta eiga á hættu að verða undir í sænsku samfélagi segir í nýrri skýrslu sem unnin var af umboðsmanni barna.
Fjallað er um skýrsluna í sænska ríkisútvarpinu en þar kemur fram að börn og ungmenni sem láta sig hverfa úr þeim vistarverum sem þeim er úthlutað af yfirvöldum eru mjög oft seld í vændi eða verða verkfæri skipulagðra glæpasamtaka.
Frá árinu 2014 hafa yfir 1.700 börn og ungmenni horfið í Svíþjóð. Af þeim hefur 41 fundist og í viðtölum við starfsmenn umboðsmanns barna kemur fram að mörg þeirra hafa orðið fyrir ofbeldi, verið hótað og ráðist á þau á þeim heimilum þar sem þau bjuggu á vegum Útlendingastofnunar.
Þessi börn segjast ekki eygja neina aðra leið færa. Þau geti ekki búið við þessar aðstæður þar sem þau verða jafnvel fyrir kynferðislegu ofbeldi af hálfu starfsmanna sem eiga að gæta þeirra, segir Anna Karin Hildingson Boqvist, sem starfar fyrir umboðsmann barna, í viðtali við þáttinn Ekot.
Umboðsmaður barna segir að Svíþjóð verði að leggja meira af mörkum til að tryggja stöðu þessara barna og að börnum verði komið fyrir á heimilum þar sem þau njóta öryggis, hæft starfsfólk starfi og tryggt verði að barna sem hverfi verði leitað.
Fyrr á árinu lýsti umboðsmaður barna áhyggjum sínum af því hversu mörg flóttabörn fengju ekki aðstoð vegna andlegra vandamála og áfalla sem þau hefðu upplifað. Varað var við því að börnin væru virk á vefjum þar sem sjálfsvígsaðferðir væru ræddar og þau litu þannig á að ef umsókn þeirra væri hafnað væru þau hvort sem er dauð.
Árið 2015 sóttu 31 þúsund börn, sem eru ein á flótta, um hæli í Svíþjóð. Eftir að hertar reglur voru settar um umsóknir þeirra í nóvember sama ár fengu mörg þeirra synjun. 13.400 hafa fengið jákvætt svar en 11.500 hefur verið synjað um hæli. Ekki er búið að afgreiða allar umsóknirnar.